Hvað er svifflug ?

Svifflug er ein þeirra íþróttagreina sem einna minnst er þekkt meðal almennings, þrátt fyrir að hún veiti iðkendum sínum ómælda ánægju.

Við bestu skilyrði fljúga svifflugur langt úr alfaraleið, inn yfir fjöll og heiðar og eru oftar en ekki „ósýnilegar“, því þær svífa hljóðlaust um og draga þ.a.l. ekki að sér athygli vegfarenda með vélarhljóði. Í þeim tilgangi að veita örlitla innsýn í íþróttina verður hér að neðan leitast við að svara nokkrum þeirra spurninga, sem svifflugmenn eru oftast spurðir um er þeir segja frá því sem þeir hafast að í frítíma sínum.

Vonandi finnur þú hér svör við einhverjum spurninga þinna um svifflug.

Hversu lengi geta svifflugur haldist á lofti?
Svifflugurnar eru annaðhvort dregnar upp af spili eða flugvél. Í spiltogi næst 250-350 m. hæð en í flugtogi er svifflugan yfirleitt komin í 500-600 m. hæð, þegar svifflugmaðurinn sleppir dráttartauginni.
Í raun eru engin fræðileg takmörk fyrir því, hversu lengi svifflugan getur haldist á lofti, svo lengi sem uppstreymi er nægilegt. Hvert flug getur varað frá 5 mínútum til nokkurra klukkustunda. Hér á landi er ekki óalgengt að flug vari í allt að 2-3 klst.
Tilraunum til að setja tímamet, var þó hætt þegar menn voru farnir að vera það lengi að þeir sofnuðu jafnvel við stjórnvölinn. Met í þolflugi á Íslandi á Tryggvi Helgason, sem flaug í rúmar 16 klukkustundir í hangi við Sellandafjall í Mývatnssveit árið 1953.
 

 
Hvað gerist ef allt í einu kemur logn?
Svifflugur eru ekki háðar vindi til að haldast á lofti, þó svo að vindur geti myndað uppstreymi. Svifflugan sígur stöðugt í átt til jarðar eftir að hafa verið dregin á loft. Svifflugmaðurinn verður því að finna uppstreymi til að klifra í. Hann getur nýtt sér þrenns konar uppstreymi:
 
 
Hlíðaruppstreymi
Þegar vindur lendir á fjallshlíð streymir hann upp fjallið. Með því að fljúga fram og til baka meðfram fjallinu er svifflugan inni í þessu uppstreymi og hækkar flugið. 


Hitauppstreymi

Á góðviðrisdögum hitar sólin jörðina og loftið næst jörðu hitnar, þenst út og verður léttara en loftið sem

ofar er. Það leitar því upp og myndar súlur eða "bólur" með rísandi lofti.
Þegar loftið rís, kólnar það og
 að lokum svo mikið að rakinn í því þéttist og myndar ský. Þetta eru bólstraský, sem sjá má víða um himinninn á heitum og sólríkum dögum.
Svifflugmaðurinn hækkar sig með því að fljúga í hringi inni í þessu rísandi lofti. Ef þú sérð svifflugu hnita hringi undir bólstraskýi, þá geturðu verið viss um að flugmaðurinn er að hækka sig í hitauppstreymi. 

 

Fjallabylgjur
Í hvössum vindi getur stundum myndast bylgjuhreyfing í loftinu hlémegin við fjöll ef rétt skilyrði eru fyrir hendi. Þessari bylgjuhegðun loftsins má líkja við bylgju í vatni: Það er eins og loftið falli í "fossi" niður af fjallinu. Þegar loftið lendir á jörðinni veldur fyrirstaðan því að það sveigir upp á við og myndar sterkt uppstreymi sem svifflugmenn geta nýtt sér. Í toppi bylgjunnar myndast sérkennileg, lagskipt ský, en undir henni er rótór sem getur verið afar varasamur vegna ókyrrðar. Bylgja getur náð allt að tífaldri hæð fjallsins sem myndaði hana.

Einhver frægasta bylgjan er líklega fyrirbæri sem myndast við norðurströnd Ástralíu á vorin og kallast Morning Glory. Sú bylgja er að vísu ekki ýkja há en hún getur orðið allt að 1000 km að lengd.


Hversu hratt, langt og hátt geta menn komist á svifflugu?
Venjulega er flogið á 80-200 km/klst. hraða en hámarkshraði getur verið allt að 300 km/klst. sem er u.þ.b. 1/3 af hraða farþegaþotna.
Svifflugur geta svifið 30-50 km fyrir hverja 1.000 m sem þær ná í hæð. Með því að nýta uppstreymi á leiðinni er síðan hægt að fljúga mörg hundruð km án þess að lenda.

Íslandsmet í fjarlægðarflugi er 558 km, frá Geitamel við Gunnarsholt á Rangárvöllum, að Álftanesi á Mýrum, aftur til baka að Múlakoti í Fljótshlíð, að Ökrum á Mýrum og aftur að Geitamel. Þetta flug tók 7 klst. Lengsta flug í beina línu er 250 km frá Sandskeiði að Kvískerjum í Öræfum.
Núverandi heimsmet á Þjóðverjinn Klaus Ohlman. Metið setti hann í Argentínu þann 26. nóvember árið 2000. Um var að ræða 2,463.7 km langt, þriggja hornpunkta bylgjuflug yfir Andesfjöllum.
Íslandsmet í hæðarflugi á Sigmundur M. Andrésson og er það rúmlega 8.000 m, sett í fjallabylgju yfir Esjunni. Þetta er svipuð hæð og farflugshæð farþegaþotna.
Heimsmet í hæðarflugi á Robert R. Harris. Metið setti hann yfir Klettafjöllum í Bandaríkjunum er hann flaug í bylgju upp í 14.938 m hæð. Við hæðarflug yfir 4.000 metrum verða svifflugmenn að nota súrefnistæki.
 
 
Hvernig er keppt í svifflugi?
Keppni í svifflugi stendur yfir í marga daga. Á hverjum degi er sett fyrir ákveðið verkefni sem  keppendur
eiga að ljúka. Verkefnið gæti t.d. verið 200 km langt, með einum eða fleiri hornpunktum og marki á flugvellinum aftur.
Keppendur reyna síðan að ljúka verkefninu á sem skemmstum tíma og taka mynd af hornpunktunum til að sanna að þeir hafi farið yfir þá. Flugtakstími og lendingartími eru skráðir og þannig reiknaður út meðalhraði á flugleiðinni.
Komist flugmaðurinn ekki alla leið og neyðist til að lenda úti, fær hann stig fyrir þá vegalengd, sem hann náði.
Íslandsmót hafa verið haldin annað hvert ár á Helluflugvelli. Keppendur hafa verið 8-15 nú á seinni árum. Í alþjóðlegum keppnum er ekki óalgengt að keppendur séu allt að 120 talsins.
 
 
Er svifflug hættulegt?
Eins og við alla íþróttaiðkun er ákveðin áhætta fólgin í svifflugi, en á sama hátt og við akstur bifreiðar er það ávalt undir stjórnandanum komið, hversu mikil hættan er.
Með ströngum reglum og eftirliti með flugi einstaklinga er svifflug ekki hættulegri íþrótt en gengur og gerist. Rannsóknir á tíðni slysa benda til að svifflug sé í svipuðum áhættuflokki og akstur mótórhjóla.
Vissulega hafa orðið alvarleg slys í svifflugi á Íslandi, en þau eru sem betur fer fátíð. Eins og í vélflugi eru öll óhöpp skráð og rannsökuð af Rannsóknanefnd flugslysa með það fyrir augum að komast að orsökinni.
 
 
Hverjir stunda svifflug á Íslandi?
Hér á landi iðka u.þ.b. 100 manns svifflug. Í Svifflugfélagi Íslands eru skráðir um 70 meðlimir á öllum aldri, sá elsti á áttræðis aldri og þeir yngstu 15 ára, sem er lágmarksaldur til að fljúga einflug án kennara.
 
 
Hvernig læra menn svifflug?
Svifflugnám skiptist í tvo hluta, verklegan og bóklegan. Verklegi hluti námsins fer fram í tveggja sæta kennslusvifflugu.
Í bóklega hlutanum er farið yfir loftaflsfræði, svifflugtækni, flugleiðsögu, veðurfræði, notkun talstöðva og lög og reglur um flug og loftrými.
Námið getur hafist þegar nemandi er orðinn 14 ára. Nemandinn þarf hins vegar að vera orðinn 15 ára til
þess að fljúga einn án kennara. Venjulega þurfa nemendur 30-40 flug með kennara áður en þeir taka hæfnispróf og fá leyfi til að fljúga einir. Eftir það taka við 10 einflug undir eftirliti kennara.
Svifflugfélögin sjá um bæði verklega og bóklega kennslu en Flugmálastjórn heldur bóklegt próf.
Að loknu námi og prófi í bóklega hlutanum gefur Flugmálastjórn út alþjóðlegt skírteini svifflugmanns. Nemendur þurfa að vera orðnir 16 ára til að fá skírteinið, en með því fá þeir réttindi til að fljúga einir án eftirlits kennara.

Það er ekki óalgengt að þeir sem ætla að læra vélflug hefji flugnám sitt hjá Svifflugfélagi Íslands. Sú reynsla sem fæst þannig er dýrmæt, því auk þess að geta byrjað fyrr að læra flug (14 ára), kynnist viðkomandi öllum grunnþáttum flugsins. Sagt hefur verið að bestu vélflugmenn búi að svifflugreynslu.
  

Hvað kostar að fljúga svifflug?
Verklegt nám frá byrjun til einflugsprófs kostar ca. 70.000 kr. Innifalin í því verði eru allt að 40 flug með kennara, 3 einflug, kennslubók og flugdagbók.
Til að fá skírteini má síðan reikna með 30.000 kr. í viðbót.
Kostnaður við flug eftir einflugspróf fer síðan eftir áhuga og ástundun hvers og eins.
 
 
Hvað kostar sviffluga?
Það er hægt að fá ágætar notaðar byrjandasvifflugur á 6-900.000 kr. Nýjustu ofur-svifflugur kosta allt að 10 milljónum króna. Góð, notuð keppnissviffluga kostar frá 1,5 millj. kr. en ný frá u.þ.b. 4 millj. kr.
Flestir nota svifflugur félagsins. Svifflugfélag Íslands á 4 einsætur sem eru til afnota fyrir félagsmenn. Einnig eru nokkrar svifflugur í einkaeign eða í sameign nokkurra manna. Þannig deilist kostnaður við kaup og rekstur á fleiri hendur auk þess sem viðhaldsvinna verður auðveldari.
 
 
Eftir hverju sækjast menn í svifflugi?
Það eru nokkrir þættir sem svifflugmenn ræða gjarnan um þegar þeir eru spurðir hvað sé svona sérstakt við svifflugið:

Að njóta náttúrunnar.
Frelsistilfinning.
Spennandi íþrótt sem veitir endalausa áskorun.
Að ná árangri á eigin spýtur.

Svifflug er frábær leið til að njóta náttúrunnar. Fagurt útsýni er yfir fjöll og dali, þú svífur frjáls eins og fuglinn og það er ekkert til að trufla þig. Það eina sem þú heyrir er örlítill hvinur í vindinum.
Svifflugið býður upp á endalausa áskorun. Fyrir byrjandann er það glíman við að ná tökum á að stjórna svifflugunni sem á hug hans allan. Eftir að svifflugmaðurinn er farinn að fljúga einn er það glíman við  náttúruöflin, að læra að finna uppstreymi í mismunandi veðurskilyrðum sem er endalaus lærdómur.


Með yfirlandsflugum opnast nýir möguleikar. Þá þarf svifflugmaðurinn að glíma við nýtt landslag og öðruvísi veðurfar.
Fyrir suma er ánægjan fólgin í að vera einn með sjálfum sér í góðu uppstreymi yfir Vífilfellinu og dást að útsýninu, fyrir aðra er ánægjan fólgin í að glíma við afreksstig og Íslandsmet, að fljúga sífellt lengra og hraðar.
Svifflug er ekki fyrir alla, en þeir sem velja svifflug fá út úr því ómælda ánægju og þeir upplifa líka margt sem engin leið er að kynnast með öðrum hætti - svifflug er engu líkt.

Að prófa svifflug er auðvelt. Á sumrin er (Svifflugfélag Íslands) með starfsemi á Sandskeiði flestar kvöld og um helgar frá kl 13:00, þegar ekki er rigning eða þoka.

Þú getur komið á þessum tímum eða hringt í síma (587-8730 og 697-8730 og fengið nánari upplýsingar
Að fara í útsýnisflug með kennara í tveggja sæta svifflugu er frábær reynsla.