Að ná gull C áfanga

Til að ná gull C áfanga í svifflugi þarf að ná 3000 metra hækkun og fljúga 300 km
yfirlandsflug skv. fyrirframákveðinni flugáætlun sem má vera þríhyrningur eða 4
leggja flug. Einnig þarf að fljúga 5 klst þolflug sem er nú lítið mál nú til dags. Mest
spurning um réttan klæðnað.
Það er frekar auðvelt að ná 3000 metra hækkun í bylgjuskilyrðum á Íslandi og einnig
vel gerlegt að fljúga 300 km yfirlandsflug í bylgju og hafa allnokkrir gert það.
Lengsta yfirlandsflug á Íslandi í er glæsilegt, um 558 km, sem Magnús Óskarsson
flaug á TF-SIS hinni eldri, í bylgju árið 1993 og stendur enn óhaggað.
Það er hins vegar mikil áskorun að ná að fljúga 300 km yfirlandsflug í hitauppstreymi
á Íslandi. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Tímaglugginn er stuttur. Nothæft
hitauppstreymi er yfirleitt ekki nema milli kl. 12 og kl. 17 á daginn og oftast
styttri.tími. Oft er ekki hægt að fljúga af stað fyrr en nálægt því kl. 13. Önnur ástæða
er hve við erum að fljúga nálægt sjó sem gerir að yfirleitt dregur inn hafgolu sem
færir inn á landið rakt og stöðugt loft sem drepur uppstreymið og þarf því að fljúga á
svæðum sem hafgolan nær ekki að trufla sem takmarkar leiðarval. Í þriðja lagi þá er
sól lágt á lofti á Íslandi og því verður hitauppstreymi sjaldan sterkt sem minnkar
hraðann í yfirlandsflugi. Að lokum má nefna að Ísland er lítið land og þegar við erum
komin 100 km eða meira frá Sandskeiði erum við oft komin inn á hálendið sem er
ekki gott til lendinga og jafnvel inn á svæði þar sem annað veðurfar ríkir en á
upphafspunkti.
Baldur Jónsson flaug í fyrra glæsilegt 300 km þríhyrningsflug sem er bæði gull C og
demantsáfangi en mér er ekki kunnugt um að aðrir hafi flogið yfir 300 km vegalengd í
hitauppstreymi skv. flugáætlun hér á landi. Ég hef flogið yfir 300 km skv. flugáætlun í
nokkur skipti á svifflugunni minni TF-SIS og lengst 437 km í fyrra.
Mig langaði að fljúga yfir 300 km í tvísessu og gerði flugáætlun 22. júlí upp á 365 km
á TF-SAS sem er Duo Discus svifflugfélagsins. Flugáætlunin var : Sandskeið –
Valafell – Búrfell Grímsnesi – Hrauneyjafoss – Sandskeið. Dagurinn lofaði mjög
góðu. Hitaferillinn benti til hátt í 2000 metra skýjahæðar m.v. 20 C hita. En það var
töluverð norðangola sem kældi landið og seinkaði því að hitauppstreymið færi af stað.
Ég var svo heppinn að hafa myndarlegan farþega sem jafnframt sá um ljósmyndun í
fluginu. Eftir þetta flug sé ég að það er tóm vitleysa að fljúga langflug einn. Miklu
skemmtilegra að hafa góðan félaga með ?
Við klifruðum fyrir vestan Skeið og flugum svo áleiðis beint yfir Hellisheiðina. Í lofti
var 50 km/klst mótvindur sem gerði að flugið sóttist seint í byrjun og uppstreymi var á
takmörkuðum svæðum.

Flogið framhjá Hveragerði

Það voru tvær skýjabrautir sem hægt var að fylgja. Við tókum þá sem lá austan við
Búrfell og að Árnesi.

Klifrað yfir Soginu

Eftir að komið var í skýjahæð, um 1800 metra, sóttist ferðin betur og ég flaug á 150 –
170 km hraða milli bóla.

Flogið yfir Hvítá

Skýjabrautin endaði neðarlega í Þjórsárdal og blátt framundan. Önnur skýjabraut lá
frá Haukadal og upp að Heklu en langt þangað yfir. Ekki annað að gera en fljúga
þangað og velja leið þangað þar sem sjá mátti smá hnoðra í myndun. Það gaf vel og
við komum undir skýjabrautina í um 1200 metra hæð. Það var öskrandi uppstreymi og
við klifruðum hratt með 3 – 4 m/s meðalklifur upp undir ský í um 2100 metra hæð.
Leiðin var greið þaðan inn að Heklu.

Skýjabrautinni fylgt að Heklu

Hitalægð var á Suðurlandi og rakt stöðugt sjávarloftið nálgaðist úr austri. Ég reiknaði
með að það myndi loka leiðinni til baka sem við flugum inn í land.

Fyrsta hornpunkti, Valafelli, náð ?. Flughæð 2300 metrar.

Á bakaleiðinni flugum við í áttaskilum (“fronti”) milli norðanáttarinn og SA
áttarinnar sem hitalægðin færði inn. 50 km meðvindur í lofti og vorum snögg niður að
Búrfelli.

Flogið yfir áttaskilunum í suðurátt á leið til Búrfells í Grímsnesi.

Þegar við komum niður að Búrfelli sáum við okkur til gleði að það var komin önnur
skýjabraut upp yfir Hruna og að Hrauneyjafossi og líklegt væri að hægt væri að
komast alla leið. Klifruðum því aftur upp undir ský og flugum í norðurátt.

3. hornpunkti náð við Hrauneyjafoss. Fallegar skýjabrautir í lofti en langt liðið á
daginn og krafturinn að dvína í uppstreyminu.

Síðasti leggurinn var auðveldur. Yfir Þjórsárdal vorum við í 2300 metra hæð, 70 km
frá Sandskeiði og tölvan sagði okkur að við kæmumst heim án þess að taka einn hring
í viðbót. En það gáfust nokkrar góðar bólur í viðbót sem borgaði sig að taka til að
auka flughraðann á leiðinni.

Á fullri ferð í lokasvifi (“final glide”)

Lent eftir 5 klst stórskemmtilegt flug

Yfirlandsflug í hitauppstreymi eru mjög krefjandi fyrir svifflugmenn og verða að
byggja á góðri þjálfun og þekkingu til að öryggi sé aldrei fórnað. Reynslan kemur
með tímanum. En þessi flug standa upp úr öllum öðrum og gera svifflugið að
einstæðri íþrótt.

Njótið góðra fluga og lendið heil ?

MeiraSetja inn athugasemd (15)Wednesday, August 12, 2009

Fyrri færslaNæsta færsla


Athugasemdir

Setjið inn athugasemd

Er falið

Lista allar færslur