Reglur um flugstarfsemi á vegum Svifflugfélags ÍslandsThe burden of everyday life is left on the
ground and becomes inconsequential
compared to the freedom that the wings of
a sailplane can provide.
Helmut Reichmann
Efni:
1. Gildissvið
1.1 Gildissvið
1.2 Gildistími


2. Skipulag flugstarfsemi
2.1 Störf og skipurit
2.1.1 Störf
2.1.2 Skipurit
2.2 Starfslýsingar
2.2.1 Starfslýsing yfirkennara
2.2.2 Starfslýsing prófkennara
2.2.3 Starfslýsing flugstjóra
2.2.4 Starfslýsing kennara
2.2.5 Starfslýsing startstjóra.
2.2.6 Starfslýsing spilstjóra
2.2.7 Starfslýsing vírstjóra .
2.2.8 Starfslýsing dráttarflugmanns .
2.2.9 Starfslýsing umsjónarmanns svifflugna
2.2.10 Starfslýsing tækjastjóra.
2.2.11 Starfslýsing umsjónarmanns dráttarflugvéla.
2.2.12 Starfslýsing umsjónarmanns vélsvifflugu.
2.3 Stjórn og skipulag svifflugæfinga
2.3.1 Tilkynning til flugturns .
2.3.2 Vélsvifflug
2.3.3 Liðskipan.
2.3.4 Verkefni liðsmanna áður en flug hefst
2.3.6 Verkefni liðsmanna eftir að flugi lýkur
2.3.7 Breyting á liðsskipan í miðri æfingu.
2.3.8 Flugtaksröð í spiltogi
2.4 Forgangur til flugs
2.4.1 Skráning í flug.
2.4.2 Forgangur gesta og nema til flugs.
2.4.3 Takmörkun flugtíma .
2.4.4 Forgangur til yfirlandsflugs
2.4.5 Tilkynning yfirlandsflugs
2.5 Umgengni á startstað
2.5.1 Mannlausar svifflugur.
2.5.2 Dráttarvírar
2.5.3 Lendingarsvæði.
2.5.4 Vélflugur .
2.5.5 Umferð ökutækja


3. Kynningarflug, svifflugnám og flugréttindi
3.1 Kynningarflug
3.1.1 Framkvæmd kynningarflugs .
3.1.2 Skráning kynningarflugs .
3.1.3 Fyrsta kynningarflug.
3.2 Svifflugnám
3.2.1 Nemendur yngri en 18 ára.
3.2.2 Læknisvottorð svifflugnema .
3.2.3 Skilyrði til einflugs .
3.2.4 A-, B- og C-próf
3.3 Veiting flugréttinda
3.3.1 Flugdagbók .
3.3.2 Kröfur um flugtíma og flugafjölda .
3.3.3 Veiting einflugsréttinda
3.3.4 Flugtogsréttindi .
3.3.5 Spiltogsréttindi
3.3.6 Réttindi til farþegaflugs
3.3.7 Kennararéttindi .
3.3.8 Einflugsréttindi á vélsvifflugu
3.3.9 Réttindi til farþegaflugs á vélsvifflugu .
3.3.10 Réttindi til yfirlandsflugs
3.3.11 Réttindi til dráttarflugs
3.3.12 Gestaflugmenn
3.4 Viðhald flugréttinda .
3.4.1 Almenn flugréttindi.
3.4.2 Hæfnispróf (PFT)
3.4.3 Flugtak í flugtogi.
3.4.4 Flugtak í spiltogi .
3.4.5 Flug með farþega
3.4.6 Einflugsréttindi á vélsvifflugu
3.4.7 Réttindi til farþegaflugs á vélsvifflugu .
3.4.8 Kennararéttindi .
3.4.9 Dráttarflugmannsréttindi.
3.5 Svipting flugréttinda hjá Svifflugfélagi Íslands.
3.5.1 Hæfni svifflugmans.


4. Svifflug
4.1 Undirbúningur flugs.
4.1.1. Samsetning svifflugu .
4.1.2 Skoðun svifflugu.
4.1.3 Gátlisti fyrir flugtak
4.1.4 Flugmaður .
4.1.5 Fallhlífar
4.1.6 Yfirlandsflug.
4.1.7 Gátlisti fyrir daglega skoðun.
4.1.8 Gátlisti fyrir flugtak
4.2 Merki sem notuð eru við flugtak
4.2.1 Merki notuð á jörðu niðri
4.2.2 Merki notuð á flugi .
4.3 Flugtog .
4.3.1 Flugbraut .
4.3.2 Dráttarflugvél
4.3.3 Dráttartaug
4.3.4 Dráttarkrókur.
4.3.5 Hraðamörk
4.3.6 Atburðarás við flugtak í flugtogi.
4.3.7 Flugtogið sjálft
4.3.8. Neyðarreglur
4.3.9 Tvítog
4.4 Spiltog
4.4.1 Öryggishlekkur á dráttarvír.
4.4.2 Hraðamörk
4.4.3 Atburðarás við flugtak í spiltogi .
4.4.4 Áfangar í spiltogi (sjá mynd)
4.4.5 Vírslit (sjá mynd)
4.4.6 Reglur fyrir spilmann
4.5 Hangflug, flug í hitauppstreymi og hæðarflug.
4.5.1 Hangflug .
4.5.2 Hitauppstreymi
4.5.3 Hæðarflug .
4.6 Listflug.
4.6.1. Skilgreining
4.6.2 Listflug á félagssvifflugum.
4.6.3 Listflug á Sandskeiði.
4.6.4 Lágmarkshæð
4.7 Loftrými og samskipti við flugumferðarstjórn
4.7.1 Mörk flugstjórnarrýmis við Sandskeið.
4.7.2 Fyrir sjónflug gilda eftirfarandi lágmörk
4.7.3 Nálægar blindflugsleiðir .
4.7.4 Fjarskiptatíðnir
4.7.5 Talstöðvarsamskipti
4.8 Aðflug og lending
4.8.1 Aðflug á Sandskeiði
4.8.2 Umferðarhringur .
4.8.3 Lækkun flugs
4.8.4 Tilkynna lendingu .
4.8.5 Gátlisti fyrir lendingu
4.8.6 Flughæð í aðflugi
4.8.7 Beygjur í aðflugi .
4.8.8 Aðflugssvæði
4.8.9 Aðflugshraði .
4.8.10 Lending í hliðarvindi.
4.9 Útilendingar .
4.9.1 Ákvörðunarhæð.
4.9.2 Val á lendingarstað .
4.9.3 Aðflug í útilendingum.
4.9.4 Undan vindi.
4.9.5 Þverleggur .
4.9.6 Lokastefna.
4.9.7 Snerting .
4.9.8 Eftir lendingu
4.9.9 Sérstakar aðstæður


5. Öryggisbúnaður.
5.1 Fallhlífar - leiðbeiningar um notkun og meðferð.
5.1.1 Undirbúningur fyrir flug .
5.1.2 Hoppað út
5.1.3 Umgengni um fallhlífar.
5.1.4 Æfingar .
5.1.5 Annað


6. Neyðaráætlun
6.1 Neyðarbúnaður.
6.2 Viðbrögð við yfirvofandi slysi.
6.3 Viðbrögð við slysi


7. Lokaorð .1. Gildissvið

1.1 Gildissvið

Reglur þessar gilda um alla flugstarfsemi á Sandskeiði og um flugstarfsemi annarsstaðar á vegum Svifflugfélags Íslands.
Þetta felur í sér að reglur þessar gilda um allt flug frá Sandskeiði, hvort sem er á loftförum í eigu Svifflugfélags Íslands eða í einkaeigu.

1.2 Gildistími

Reglur þessar voru samþykktar af stjórn félagsins 9. maí 1994 og endurskoðaðar í febrúar 2003 og gilda frá þeim tíma.

2. Skipulag flugstarfsemi

2.1 Störf og skipurit

2.1.1 Störf

Í tengslum við flugstarfsemi á vegum Svifflugfélags Íslands eru eftirfarandi störf skilgreind:
2.2.1 Yfirkennari
2.2.2 Prófkennari
2.2.3 Flugstjóri
2.2.4 Kennari
2.2.5 Startstjóri
2.2.6 Spilstjóri
2.2.7 Vírstjóri
2.2.8 Dráttarflugmaður
2.2.9 Umsjónarmaður svifflugna
2.2.10 Tækjastjóri
2.2.11 Umsjónarmaður dráttarflugvéla
2.2.12 Umsjónarmaður vélsvifflugu

2.1.2 Skipurit


Heilar línur tákna beint valdboð, brotnar línur tákna tilkynningaskyldu.

2.2 Starfslýsingar

2.2.1 Starfslýsing yfirkennara

Yfirkennari er skipaður af stjórn félagsins.
Yfirkennari ber ábyrgð gagnvart stjórn félagsins á kennslustöðlum félagsins, kennslu og öryggismálum á Sandskeiði.
Yfirkennari er yfirmaður kennara hvað kennslu- og öryggismál varðar og ber því ábyrgð á því að þeir framfylgi kennslustöðlum og öryggisreglum félagsins.
Yfirkennari ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Yfirumsjón með og ábyrgð á gerð staðla fyrir svifflugkennslu á vegum félagsins í samráði við stjórn.
• Gera kennsluskrá.
• Velja kennsluefni.
B. Setja reglur og sjá um val og þjálfun kennara í samráði við stjórn félagsins.
• Útbúa reglur um lágmarkshæfni kennara í samráði við stjórn félagsins.
• Gera staðla um þjálfun kennara í samráði við stjórn félagsins.
• Velja kennaraefni í samráði við stjórn félagsins.
• Sjá um þjálfun og kennslu kennara.
• Sjá um prófun kennara og veitingu réttinda sbr. 3.3.7.
C. Eftirlit með að svifflugkennsla sé í samræmi við kennslustaðla félagsins.
• Halda kennarafundi
D. Umsjón með öryggismálum í sambandi við flug á Sandskeiði.
• Athuga ábendingar um að flug ákveðins svifflugmanns uppfylli ekki öryggiskröfur og gera viðeigandi ráðstafanir, til dæmis:
• ræða við viðkomandi flugmann um úrbætur,
• svipta viðkomandi flugmann leyfi til flugs á vegum
félagsins sbr. kafla 3.5.
• Gera tillögur til stjórnar um breytingar á starfsreglum þessum til að auka öryggi og til samræmis við reglur um loftferðir.
• Úrskurða í vafamálum um hæfni flugmanna.

2.2.2 Starfslýsing prófkennara

Prófkennarar eru skipaðir af stjórn félagsins eða kennarafundi í samráði við yfirkennara. Þeir hafa réttindi til að prófa nemendur og veita þeim réttindi til einflugs og að hæfnisprófa eða fela öðrum kennurum að hæfnisprófa svifflugmenn.
Prófkennari ber ábyrgð á að prófanir nemenda og hæfnisprófanir svifflugmanna fari eftir reglum þessum.
Prófkennari ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Prófun nemenda fyrir einflug og veiting einflugsréttinda sbr. 3.3.3.

2.2.3 Starfslýsing flugstjóra

Flugstjóri skal vera valinn eftir eftirfarandi röð:
1. Kennari
2. Svifflugmaður með skírteini svifflugmanns og a.m.k. 60 klst flugtíma á svifflugu.
Flugstjóri ber ábyrgð á starfsemi á Sandskeiði, meðan á svifflugæfingunni stendur.
Flugstjóri ber ábyrgð á að öryggisreglum sé framfylgt.
Flugstjóri er yfirmaður startstjóra og kennara og ber því ábyrgð á stjórnun þeirra.
Flugstjóri ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Yfirumsjón með og ábyrgð á öllu flugi og öryggismálum í sambandi við flugið.
• Ákveða flugtaksstað og flugtaksmáta.
• Tilkynna flug til flugturns eða sjá til þess að það sé gert.
• Sjá til þess að flugskrá sé færð, afrit af henni sett í möppu í lok dags og henni ásamt flugmiðum og peningum komið til gjaldkera.
• Úrskurða um atriði er varða öryggismál s.s. flughæfi svifflugna og flugmanna í samræmi við þessar reglur og aðrar reglur um loftferðir.
• Tilkynna bilanir á svifflugum til umsjónarmanns svifflugna og ákveða úrbætur í samráði við hann.
• Athuga ábendingar um að flug ákveðins svifflugmanns uppfylli ekki öryggiskröfur og gera viðeigandi ráðstafanir, til dæmis:
o ræða við viðkomandi flugmann um úrbætur,
o svipta viðkomandi flugmann leyfi til flugs á Sandskeiði á
viðkomandi flugæfingu. Sé þetta gert skal það tilkynnt
yfirkennara eins fljótt og kostur er.
B. Sjá um frágang svifflugna í skýli.
C. Afboðun flugs.
• Afboða flug eða sjá til þess að það sé gert.

2.2.4 Starfslýsing kennara

Kennari skal hafa gild kennararéttindi sbr. 3.3.7 og 3.4.8.
Hann ber ábyrgð á að svifflugkennsla fari eftir kennslustaðli félagsins.
Kennari ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Skoða kennslusvifflugu.
B. Kenna í samræmi við kennslugögn félagsins.
C. Hafa umsjón með flugi þeirra sem fljúga einflug án skírteinis.
• Leiðbeina þeim eftir því sem þurfa þykir.
• Hæfnisprófun flugmanna sbr. 3.4.2.
D. Veita réttindi á nýja tegund svifflugu sbr. 3.3.3, enda hafi kennari réttindi til flugs á viðkomandi tegund svifflugu.
E. Veita réttindi til flugs með ákveðnum togmáta sbr. 3.3.4 og 3.3.5.
F. Veita réttindi til að fljúga með farþega á svifflugu sbr. 3.3.6.
G. Veita svifflugmönnum sem koma sem gestir á Sandskeið réttindi til einflugs á vegum félagsins sbr. 3.3.12.

2.2.5 Starfslýsing startstjóra

Startstjóri skal hafa lokið einflugsprófi á svifflugu.
Startstjóri ber ábyrgð á starfsemi og öryggismálum á jörðu niðri.
Startstjóri ber ábyrgð á fjármálum er varða flugið.
Startstjóri er yfirmaður dráttarflugmanna, spilstjóra og vírstjóra og ber því ábyrgð á stjórnun þeirra.
Startstjóri ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Skipulag á flugtaksstað.
• Ákveða hvar á að leggja svifflugunum.
• Ákveða hvar á að taka á loft (í samráði við flugstjóra).
• Ákveða hvar leggja má bílum.
• Stjórna umferð fólks á startstað.
B. Verkstjórn á flugtaksstað.
• Sjá til þess að öryggis- og starfsreglur í sambandi við flugtak séu haldnar.
• Skipa mönnum til verka við að draga svifflugurnar í stæði eða flugtaksröð og heim að flugi loknu.
• Sjá til þess að vír sé sóttur.
C. Umsjón flugs.
• Stjórna flugtaksröð.
• Skrá flug.
• Skrá upplýsingar um þá sem fara í kynningarflug.
D. Talstöðvarsamskipti.
• Sjá um öll samskipti á flugtaksstað.
• Hafa umsjón með samskiptum við utanaðkomandi flugumferð (í samráði við spilstjóra).
E. Umsjón fjármála.
• Selja flugmiða.
• Taka við flugmiðum.
• Taka við innborgunum og rukka samkvæmt skuldalista.
• Setja afrit af flugskrá í möppu.
• Gera upp flugskrá og skila til gjaldkera.

F. Kynningarstarfsemi.
• Sjá um að starfsemin sé kynnt fyrir fólki sem kemur til að kynna sér svifflug.
Startstjóri skal að jafnaði vera á startstað þann tíma sem flogið er. Ef það er ekki mögulegt skal hann fá annan aðila til að sinna störfum startstjóra í fjarveru sinni.

2.2.6 Starfslýsing spilstjóra

Spilstjóri skal hafa lokið einflugsprófi á svifflugu, nema stjórnin samþykki sérstaklega annan aðila.
Spilstjóri ber ábyrgð á starfsemi og öryggismálum er varða spilið.
Spilstjóri ber ábyrgð á skoðun spilsins og búnaðar þess og á að tilkynna tækjastjóra um bilanir.
Spilstjóri ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Rekstur spils.
• Taka út spil, skoða, koma fyrir á flugbraut og gera tilbúið til notkunar.
• Draga á loft.
• Gera við vírslit.
• Annast nauðsynlega skoðun spilsins og sjá um að öryggisbúnaður til flugtaks sé í fullkomnu lagi. Ef svo er ekki skal tafarlaust tilkynna það startstjóra.
• Ganga frá spilinu í lok dags þannig að það sé tilbúið til notkunar næsta dag.
• Tilkynna bilanir á spili til tækjastjóra.
B. Fjarskipti.
• Sjá um fjarskipti við utanaðkomandi flugumferð í samráði við startstjóra.

2.2.7 Starfslýsing vírstjóra

Vírstjóri er sá sem ekur Vírus hverju sinni.
Vírstjóri ber ábyrgð á starfsemi og öryggismálum er varða Vírus.

Vírstjóri ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Rekstur Vírusar.
• Taka Vírus út.
• Draga út vír - vera ávallt til taks þegar seinni vír er dreginn að spili.
• Draga slitinn vírenda að spili og gera við vírslit þar.
• Ganga frá Vírusi í lok dags þannig að hann sé tilbúinn til notkunar næsta dag.
• Tilkynna bilanir á Vírusi til tækjastjóra.

2.2.8 Starfslýsing dráttarflugmanns

Dráttarflugmaður skal hafa gild réttindi sem dráttarflugmaður sbr.
3.3.11 og 3.4.9.
Dráttarflugmaður ber ábyrgð á starfsemi og öryggismálum er varða dráttarflugvélina.
Dráttarflugmaður ber ábyrgð á skoðun dráttarflugvélarinnar og búnaðar hennar.
Dráttarflugmaður ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Rekstur dráttarflugvélar.
• Taka dráttarflugvélina út, skoða og gera tilbúna til notkunar.
• Kynna sér lágmarks og hámarks flugtogshraða þeirra svifflugna sem á að draga á loft.
• Draga á loft í samræmi við reglur um flugtog.
• Skrá öll flug í flugdagbók flugvélarinnar.
• Annast nauðsynlega skoðun dráttarflugvélarinnar og sjá um að öryggisbúnaður til flugtaks sé í fullkomnu lagi. Ef svo er ekki skal tafarlaust tilkynna það flugstjóra.
• Ganga frá dráttarflugvélinni í flugskýli í lok dags.
• Tilkynna bilanir til umsjónarmanns dráttarflugvéla.

2.2.9 Starfslýsing umsjónarmanns svifflugna

Umsjónarmaður svifflugna situr í stjórn félagsins og ber ábyrgð á eftirfarnadi þáttum:

A. Yfirumsjón og eftirlit með ástandi svifflugna félagsins.
• Fylgjast með ástandi svifflugna og ákveða úrbætur.
B. Yfirumsjón og eftirlit með vinnu við viðgerðir á svifflugum félagsins.
• Gera viðgerðaáætlun:
o hvaða svifflugur,
o hvenær,
o hvað á að gera við.
• Fá menn til verksins.
• Fá skoðunarmenn til að skoða svifflugurnar.
C. Ábyrgð á að handbækur og dagbækur svifflugna séu í samræmi við
gildandi reglur þar að lútandi.
• Sjá til þess að handbækur svifflugnanna séu aðgengilegar flugmönnum.
• Sjá til þess að í dagbækur svifflugnanna séu færð flug, viðgerðir og skoðanir.

2.2.10 Starfslýsing tækjastjóra

Tækjastjóri situr í stjórn félagsins og ber ábyrgð á ástandi jarðbundinna tækja félagsins.
Tækjastjóri ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Yfirumsjón og eftirlit með ástandi jarðbundinna tækja félagsins.
• Fylgjast með ástandi tækja og ákveða úrbætur.
• Úrskurða í vafamálum um notkunarhæfi tækja.
B. Yfirumsjón og eftirlit með vinnu við viðgerðir á tækjum félagsins.
• Gera viðgerðaáætlun:
o hvaða tæki,
o hvenær,
o hvað á að gera við.
• Fá menn til verksins.
C. Setja reglur og sjá um val og þjálfun spilmanna í samráði við stjórn félagsins.
• Gera staðla um þjálfun spilmanna.
• Velja spilmannaefni.
• Sjá um þjálfun og kennslu spilmanna.
Stjórn er heimilt að fela tveimur eða fleiri aðilum tækjastjórastarfið.

2.2.11 Starfslýsing umsjónarmanns dráttarflugvéla

Umsjónarmaður dráttarflugvéla skal vera dráttarflugmaður og er skipaður af stjórn félagsins.
Umsjónarmaður dráttarflugvéla ber ábyrgð á ástandi dráttarflugvéla félagsins.
Umsjónarmaður dráttarflugvéla ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Yfirumsjón og eftirlit með ástandi dráttarflugvéla félagsins.
• Fylgjast með ástandi dráttarflugvéla og ákveða úrbætur í samráði við flugvirkja.
B. Yfirumsjón og eftirlit með vinnu við viðgerðir á dráttarflugvélum félagsins.
• Gera viðgerðaáætlun:
o hvenær,
o hvað á að gera við.
• Fá menn til verksins.
C. Setja reglur og sjá um val og þjálfun dráttarflugmanna í samráði við stjórn félagsins.
• Gera staðla um þjálfun dráttarflugmanna.
• Sjá um þjálfun og kennslu dráttarflugmanna.

2.2.12 Starfslýsing umsjónarmanns vélsvifflugu

Umsjónarmaður vélsvifflugu skal hafa réttindi til flugs á henni og er skipaður af stjórn félagsins.
Umsjónarmaður vélsvifflugu ber ábyrgð á ástandi hennar.
Umsjónarmaður vélsvifflugu ber ábyrgð á eftirfarandi verkþáttum:
A. Yfirumsjón og eftirlit með ástandi vélsvifflugunnar.
• Fylgjast með ástandi vélsvifflugunnar og ákveða úrbætur.
B. Yfirumsjón og eftirlit með vinnu við viðgerðir á vélsvifflugunni.
• Gera viðgerðaáætlun:
o hvenær,
o hvað á að gera við.
• Fá menn til verksins.

2.3 Stjórn og skipulag svifflugæfinga

2.3.1 Tilkynning til flugturns

Áður en flug hefst skal tilkynna svifflug til Flugturns í síma 5694142 eða 5694146. Eftir það skal ávallt vera hlustunarvakt á tíðni 119,9.
2.3.2 Vélsvifflug

Ef einn flugmaður er á Sandskeiði og ætlar að fljúga vélsvifflugu skal hann ekki tilkynna svifflug heldur hringja í Flugturn og gera flugáætlun. Að loknu flugi skal hann gæta þess að loka flugáætlun.

2.3.3 Liðskipan

Í upphafi hverrar svifflugæfingar skal eftirfarandi liðsskipan ákveðin:
Flugstjóri (2.2.3)
Kennarar (2.2.4)
Startstjóri (2.2.5)
Spilstjóri (2.2.6)
Vírstjóri (2.2.7)
Dráttarflugmaður (2.2.8)

2.3.4 Verkefni liðsmanna áður en flug hefst

Verkefni liðsmanna í upphafi dags skal vera sem hér segir:
Fyrsti liðsmaður sem kemur á Sandskeið.
• Ef útlit er fyrir flugveður:
o opna skýli,
o sjá um að svifflugur séu teknar út og dregnar út á viðeigandi enda,
o tilkynna flug til flugturns.

Flugstjóri
• Ákveða flugtaksstað og flugtaksmáta.
• Athuga að flug hafi verið tilkynnt til flugturns og tilgreint hvort vélflugbraut sé lokuð.
Kennari
• Sjá um skoðun kennslusvifflugu. Athuga að rafhlaða sé tekin með.
Startstjóri
• Ná í bókunarlista, flugskrá og talstöð inn í skála.
• Skrá flugmenn í flugtaksröð.
• Ákveða hvar leggja á svifflugum og bílum.
Spilstjóri
• Taka út spil, skoða, koma fyrir á flugbraut og gera tilbúið til notkunar.
Vírstjóri
• Taka út Vírus og skoða.
• Ná í fyrstu 2 vírana - tryggja að vír sé til reiðu þegar fyrstu svifflugur eru tilbúnar til flugtaks.

2.3.5 Verkefni liðsmanna eftir að flug hefst

Flugstjóri
• Hafa yfirumsjón með öllu flugi og öryggismálum í sambandi við flugið.
• Úrskurða um atriði er varða öryggismál s.s. flughæfi svifflugna og flugmanna í samræmi við þessar reglur og aðrar reglur um loftferðir.

Kennari
• Kenna svifflug í samræmi við kennslugögn félagsins.
• Hafa umsjón með flugi þeirra sem fljúga einflug án skírteinis:
• kynna sér hverjir ætla að fljúga einflug,
• leiðbeina þeim eftir því sem þurfa þykir.
• Veita réttindi á nýja tegund svifflugu sbr. 3.3.3.
• Veita réttindi til flugs með ákveðnum togmáta sbr. 3.3.4 og 3.3.5.
• Veita réttindi til að fljúga með farþega á svifflugu sbr. 3.3.6.
• Veita svifflugmönnum sem koma sem gestir á Sandskeið réttindi til einflugs á vegum félagsins sbr. 3.3.12.

Startstjóri
• Sjá um verkstjórn á flugtaksstað - skipa mönnum til verka:
o að svifflugum sé ýtt til baka í stæði,
o að svifflugmenn séu tilbúnir til flugs.
• Sjá til þess að öryggis- og starfsreglur í sambandi við flugtak séu haldnar.
• Stjórna flugtaksröð.
• Halda flugskrá og skrá yfir þá sem fljúga kynningarflug.
• Umsjón fjármála:
o selja flugmiða,
o taka við flugmiðum,
o taka við innborgunum og rukka samkvæmt skuldalista.
• Sjá til þess að vír sé sóttur (í samráði við vírstjóra).
• Sjá um talstöðvarsamskipti á flugtaksstað.
• Sjá um að starfsemin sé kynnt fyrir fólki sem kemur til að kynna sér svifflug.

Spilstjóri
• Draga á loft.
• Gera við vírslit.
• Sjá um að öryggisbúnaður spilsins sé í fullkomnu lagi. Ef svo er ekki skal tafarlaust tilkynna það startstjóra.
• Sjá um fjarskipti við utanaðkomandi flugumferð í samráði við startstjóra.

Vírstjóri
• Draga út vír - vera ávallt til taks við spil þegar seinni vír er dreginn að spili.
• Draga slitinn vírenda að spili og gera við vírslit þar.
• Tilkynna um bilanir á Vírusi til startstjóra.

2.3.6 Verkefni liðsmanna eftir að flugi lýkur

Flugstjóri
• Sjá um frágang svifflugna í skýli.
• Sjá um að rafhlöður fari í hleðslu.
• Sjá um að gengið sé frá fallhlífum.
• Afboða flug.
• Tilkynna bilanir til umsjónarmanns svifflugna. Startstjóri
• Ganga frá flugskrá og peningamálum.
• Athuga hvort skilaboð hafi verið hringd inn á símsvarann.
• Setja afrit af flugskrá í möppu.
• Gera upp flugskrá og skila til gjaldkera.
Dráttarflugmaður
• Setja dráttarflugvél inn og loka skýli.
• Tilkynna bilanir til umsjónarmanns dráttarflugvéla.
Spilstjóri
• Setja spilið inn.
• Tilkynna bilanir til tækjastjóra.
Vírstjóri
• Draga svifflugur heim.
• Setja Vírus inn og loka bragganum.
• Tilkynna bilanir til tækjastjóra.
Síðasti maður af Sandskeiði
• Lækka hitastillingu í Harðarskála.
• Setja öryggiskerfi á, slökkva og læsa.

2.3.7 Breyting á liðsskipan í miðri æfingu

Ekki skal skipta um flugstjóra eða spilstjóra nema með vitund startstjóra.

2.3.8 Flugtaksröð í spiltogi

Spilstjóra skal tilkynnt hvaða svifflugu skuli draga næst og hver flýgur henni.

2.4 Forgangur til flugs

2.4.1 Skráning í flug

Svifflugmenn geta látið skrá sig til flugs í þeirri röð sem þeir koma á svifflugvöllinn.

2.4.2 Forgangur gesta og nema til flugs

Startstjóra er heimilt að láta gesti félagsins og nema sem eru að ljúka námi fyrir einflugspróf hafa forgang til flugs.

2.4.3 Takmörkun flugtíma

Flugstjóra og startstjóra er heimilt að takmarka tímalengd fluga. Flug á einsætum skal að jafnaði ekki takmarka við skemmri tíma en 30 mínútur og 60 mínútur á LS-4.

2.4.4 Forgangur til yfirlandsflugs

Þeir sem hyggjast reyna yfirlandsflug hafa forgang að LS-4.

2.4.5 Tilkynning yfirlandsflugs

Þeir sem hyggjast reyna yfirlandsflug skulu tilkynna það startstjóra eða flugstjóra áður en lagt er af stað og gefa upp flugáætlun.

2.5 Umgengni á startstað

2.5.1 Mannlausar svifflugur

Mannlausar svifflugur á svifflugvelli skulu ætið hafa lofthemla að fullu úti. Sé vindhraði verulegur skal setja farg á vængenda.

2.5.2 Dráttarvírar

Dráttarvír skal draga beint út frá dráttarspili að startstað. Ef um tvo víra er að ræða skal draga þá frá dráttarspili en ekki þaðan sem þeir falla á jörðina. Gæta skal þess að vírfallhlífin dragist ekki eftir jörðinni.

2.5.3 Lendingarsvæði

Halda skal lendingarsvæðinu auðu og færa svifflugur sem lenda jafnóðum í stæði eða í flugtaksröð ef þeim skal flogið strax aftur.

2.5.4 Vélflugur

Gestir sem koma á vélflugum skulu leggja þeim við vélflugbraut, á þeim enda sem startstaður er og koma gangandi fyrir brautarenda. Startstjóri og spilmaður geta þó gefið leyfi til að aka heim að tanki eða að startstað.

2.5.5 Umferð ökutækja

Bílaumferð er bönnuð á flugbrautum nema til að draga svifflugur eða til annars sem er beint tengt flugstarfseminni.

3. Kynningarflug, svifflugnám og flugréttindi

3.1 Kynningarflug

3.1.1 Framkvæmd kynningarflugs

Fyrsta kynningarflug skal helst fara fram í flugtogi.
Kynningarflugmaður skal leitast við að gera kynningarflugið eins ánægjulega upplifun fyrir farþegann og kostur er. Reyna á að sneiða hjá ókyrrð eftir því sem frekast er unnt og ekki taka krappar beygjur.

3.1.2 Skráning kynningarflugs

Startstjóri skal skrá upplýsingar um hvern farþega, nafn, heimilisfang og síma. Þannig er seinna hægt að sjá hvort og hvenær hann hafi flogið áður.

3.1.3 Fyrsta kynningarflug

Í fyrsta kynningarflugi er farið yfir eftirfarandi þætti:
• Hjálpa viðkomandi að koma sér fyrir og spenna beltin.
• Sýna honum hvað er hvað í stjórnklefanum.
• Segja honum hvað muni gerast í fluginu.
• Í flugtoginu að benda honum á að horfa út og njóta útsýnisins.
• Sýna hvernig stýrin virka með því að láta hann vera með á stýrunum.
• Ef hann vill skal láta hann prófa að stjórna hraðanum, halda hraða og breyta hraða.
• Stilla sviffluguna og sýna að hún geti flogið sjálf.
• Sýna beygju með litlum halla og láta hann prófa ef hann vill.
• Leyfa honum að vera með á stýrunum í aðflugi og lendingu ef hann vill.
• Eftir kynningarflug má leggja til við farþegann að hann hefji eiginlegt svifflugnám.

3.2 Svifflugnám

3.2.1 Nemendur yngri en 18 ára

Nemendur sem eru undir 18 ára aldri skulu skila til kennara skriflegu leyfi frá foreldri eða forráðamanni.

3.2.2 Læknisvottorð svifflugnema

Flugnemi ætti í upphafi svifflugnáms að verða sér út um læknisvottorð frá viðurkenndum lækni. Vottorði þessu verður að skila til kennara í síðasta lagi fyrir fyrsta einflug.

3.2.3 Skilyrði til einflugs

Til að fljúga einflug þarf nemandi að vera orðinn 15 ára gamall og hafa flogið í tvísætu með kennara a.m.k. 30 flug sem eru a.m.k. 5 klst. að lengd. Fyrir flugmenn með a.m.k. gilt skírteini einkaflugmanns er lágmarksflugafjöldi í tveggja sæta svifflugu með kennara 10 flug sem samtals eru a.m.k. 2 klst. að lengd.

3.2.4 A-, B- og C-próf

A-próf fæst við fyrsta einflug. Það veitir nem-anda rétt til að fljúga einn í æfingasvæði undir eftirliti kennara.
B-próf fæst eftir 3 árangursríkar marklendingar í röð, 15 einflug og að þeim loknum 3 viðurkennd flug með kennara. B-próf veitir nemanda rétt til að fljúga einflug í nágrenni svifflugvallar.
C-próf fæst þegar nemandi hefur lokið a.m.k. 12 klst. fartíma sem flugmaður í svifflugum, þ.m.t. 5 klst. einflugstíma þar sem eigi færri en 20 flugtök og lendingar skulu hafa verið framkvæmdar. Heildarfjöldi flugferða skal vera minnst 45.
Með C-prófi telst nemandi hafa lokið verklegum hluta námsefnis til skírteinis svifflugmanns.

3.3 Veiting flugréttinda

3.3.1 Flugdagbók

Svifflugmenn skulu skrá öll svifflug sín í sérstakar flugdagbækur þar sem fram kemur heildarfjöldi fluga, tímalengd hvers þeirra, tegund svifflugu, togmáti og hvort er um að ræða einflug eða flug með kennara.

3.3.2 Kröfur um flugtíma og flugafjölda

Lágmarkskröfur um fjölda fluga og samanlagðan flugtíma í svifflugi til réttinda fyrir flug á svifflugum Svifflugfélags Íslands er eftirfarandi:
Sviffluga Flugafjöldi Flugtími
K-8b 30 5 klst.
Ka-6E 70 40 klst.
ASK-21 60 30 klst.1
ASK-21 m. farþ. 90 50 klst.
LS-4 70 45 klst.2
Vélsviffluga 110 65 klst.
Ofangreindar kröfur er heimilt að helminga þegar í hlut eiga flugmenn með a.m.k. gilt skírteini einkaflugmanns. Fyrir K-8b er lágmarks flugafjöldi slíkra flugmanna í svifflugi 10 flug.

3.3.3 Veiting einflugsréttinda

Áður en svifflugkennari veitir réttindi til einflugs á nýja gerð, skal eftirfarandi atriðum fullnægt:
• Heimilt er að senda nemanda í sóló á ASK-21, hafi 2/3 þjálfunar nemandans farið fram á þeirri svifflugu.
• Þó að lágmarki 5 klst. einflug á ASK-21.
• Lögð fram flugdagbók til staðfestingar á ofangreindum lágmarksfluga- og flugtímafjölda. Sé sótt um lækkun á kröfum vegna annarra flugréttinda skal jafnframt leggja fram þau önnur flugskírteini sem slík lækkun byggist á.
• Flogið skal a.m.k. eitt flug á tvísætu með svifflugkennara - nema kennari ákveði annað.
• Svifflugmaður lesi handbók umræddrar svifflugu og fari yfir öll helstu atriði sem varða eiginleika hennar, þ. á m. flughraða, hleðslumörk, takmarkanir á flugi, svo og samsetningu hennar. Kennari fari síðan með honum yfir þessi atriði.
• Svifflugmaður setjist niður í sviffluguna og fari með kennara yfir hvar öll handföng og stýri eru. Svifflugmaðurinn skal prófa öll stýri sem hægt er að prófa á jörðu niðri. Hann skal „læra" hvar hvert handfang er þannig að viðbrögð til að finna ákveðið stýri séu nægilega góð. Stóran hluta af slysum í flugi á nýjum tegundum má rekja til þess að svifflugmaðurinn þekkir ekki stjórnklefann nægilega vel.
• Svifflugmaður fljúgi 2 flug á umræddri svifflugu í æfingasvæði undir eftirliti kennara. Sé það nauðsynlegt skal kennari vera í sambandi við hann í gegnum talstöð. Þessi flug skulu vera í rólegu veðri, ekki mikill vindur eða ókyrrð í lofti.

3.3.4 Flugtogsréttindi

Til að fá réttindi til að fljúga svifflugu í flugtogi þarf svifflugmaður að:
kunna skil á reglum um flugtog,
hafa flogið a.m.k. 5 flug í flugtogi á tvísætu með kennara.

3.3.5 Spiltogsréttindi

Til að fá réttindi til að fljúga svifflugu í spiltogi þarf svifflugmaður að:
kunna skil á reglum um spiltog,
hafa flogið a.m.k. 10 flug í spiltogi á tvísætu með kennara.

3.3.6 Réttindi til farþegaflugs

Til að fá réttindi til að fljúga með farþega í svifflugu þarf svifflugmaður að:
hafa flogið a.m.k. 100 flug sem samtals eru a.m.k. 50 klst. í svifflugi,
fljúga a.m.k. eitt prófflug á tvísætu með kennara.

Þrátt fyrir að svifflugmaður uppfylli þær kröfur um flugréttindi sem taldar eru upp hér að framan, hefur mat kennara ætíð úrslita áhrif við veitingu flugréttinda. Þó skal þess gætt að ef fljúga á með farþega skal skírteinishafi hafa lokið eigi færri en 10 stunda fartíma sem flugmaður svifflugna.

3.3.7 Kennararéttindi

Til að fá réttindi sem kennari þarf svifflugmaður að hafa:
flogið a.m.k. 200 flug sem samtals eru a.m.k. 100 klst. í svifflugi,
flogið a.m.k. 10 flug í aftursæti kennslusvifflugu með kennara,
kynnt sér kennslustaðla félagsins og aðrar þær starfs- og öryggisreglur sem koma kennsluflugum við.

3.3.8 Einflugsréttindi á vélsvifflugu

Til að fá réttindi til einflugs á vélsvifflugu þarf svifflugmaður að hafa:
a. gilt skírteini svifflugmanns,
b. flogið a.m.k. 110 flug í svifflugi sem samtals eru a.m.k. 65 klst.,
c. flogið a.m.k. 10 flug í svifflugi sem samtals eru a.m.k. 3 klst. og framkvæmt a.m.k. 30 lendingar með kennara á vélsvifflugunni,
d. lent a.m.k. einu sinni utan Sandskeiðs með kennara á vélsvifflugu,
e. flogið a.m.k. 5 einflug og framkvæmt a.m.k. 10 lendingar á vélsvifflugu í æfingasvæði undir eftirliti kennara. Heimilt er að veita undanþágu frá a og b þegar í hlut eiga flugmenn með gild vélflugréttindi.

Áður en einflugsréttindi eru veitt á vélsvifflugu skal svifflugmaður lesa handbók vélsvifflugunnar og fara yfir öll helstu atriði sem varða eiginleika hennar, þ. á m. flughraða, hleðslumörk og takmarkanir á flugi. Kennari fari síðan með honum yfir þessi atriði.

3.3.9 Réttindi til farþegaflugs á vélsvifflugu

Til að fá réttindi til farþegaflugs á vélsvifflugu þarf svifflugmaður að:
hafa flogið a.m.k. 15 flug og framkvæmt a.m.k. 20 lendingar í einflugi á viðkomandi vélsvifflugu.

3.3.10 Réttindi til yfirlandsflugs

Réttindi til yfirlandsflugs frá Sandskeiði, svo og á svifflugum félagsins annarsstaðar frá, hafa þeir svifflugmenn sem hafa annaðhvort lokið silfur-C1(Þá áður en þessar reglur tóku gildi) eða yfirlandsflugsnámskeiði.

3.3.11 Réttindi til dráttarflugs

Til að fá réttindi sem dráttarflugmaður þarf flugmaður að:
• vera handhafi gilds skírteinis einkaflugmanns eða atvinnuflugmanns, eða samþykki stjórnar fyrir dráttarflugi á vélsvifflugu,
• hafa samanlagðan flugtíma a.m.k. 150 klst., þar af 100 klst. í vélflugi(Gildir aðeins fyrir togréttindi á TF-TUG)
• hafa flogið a.m.k. 6 klst. í vélflugi á síðustu 12 mánuðum,
• hafa flogið einflug á stélhjólsvél eða a.m.k. 2 klst. með kennara(Þá aðeins ef dráttarflugvél er með stélhjól)
• hafa flogið a.m.k. 1 flug í svifflugu í flugtogi,
• hafa lært þær starfs- og öryggisreglur um flugtog sem koma fram í köflum 4.2 og 4.3.

3.3.12 Gestaflugmenn

Áður en svifflugkennari veitir svifflugmanni, sem kemur sem gestur á Sandskeið, réttindi til flugs á vegum félagsins, skal eftirfarandi atriðum fullnægt:
Kennari athugi skírteini og/eða flugdagbók svifflugmanns og fullvissi sig um að réttindi hans til svifflugs eru gild og hann fullnægi kröfum um flug á viðkomandi tegund svifflugu.
Svifflugmanninum verði kynntar allar þær reglur sem hann þarf að þekkja.
Ef kennari þekkir ekki deili á viðkomandi flugmanni skal farið í tékkflug á tvísessu.

3.4 Viðhald flugréttinda

3.4.1 Almenn flugréttindi

Til að viðhalda réttindum sínum í svifflugi þarf svifflugmaður að hafa:
gilt skírteini svifflugmanns,
gilt læknisvottorð,
staðist hæfnispróf (PFT) á síðustu 24 mánuðum,
flogið a.m.k. 12 flug sem samtals eru a.m.k. 3 klst. á síðustu 24 mánuðum eða standast hæfnispróf (PFT).

3.4.2 Hæfnispróf (PFT)

Svifflugmenn skulu undantekningarlaust gangast undir hæfnispróf (PFT) á 24 mánaða fresti. Svifflugmaður ber sjálfur ábirgð á flugréttindum sínum og að þau séu í gildi. Eftir að svifflugmaður hefur staðist hæfnispróf skal kennari staðfesta það með undirskrift sinni í flugdagbók viðkomandi svifflugmanns.

3.4.3 Flugtak í flugtogi

Til að viðhalda réttindum sínum til flugtaks í flugtogi þarf svifflugmaður:
að hafa flogið 2 flug í flugtogi á undanförnum 12 mánuðum eða hafa
staðist hæfnispróf í flugtogi á undanförnum 6 mánuðum.

3.4.4 Flugtak í spiltogi

Til að viðhalda réttindum sínum til flugtaks í spiltogi þarf svifflugmaður:
að hafa flogið 3 flug í spiltogi á undanförnum 12 mánuðum eða hafa staðist hæfnispróf í spiltogi á undanförnum 6 mánuðum.

3.4.5 Flug með farþega

Til að viðhalda réttindum til að fljúga með farþega þarf svifflugmaður
að hafa flogið a.m.k. 5 flug með viðkomandi togmáta á síðustu 12 mánuðum.

3.4.6 Einflugsréttindi á vélsvifflugu

Til að viðhalda réttindum sínum á vélsvifflugu þarf svifflugmaður að
hafa flogið a.m.k. 3 klst. með samtals 10 lendingum á síðustu 12 mánuðum eða hafa staðist hæfnispróf á viðkomandi vélsvifflugu á síðustu 6 mánuðum.

3.4.7 Réttindi til farþegaflugs á vélsvifflugu

Til að viðhalda réttindum til að fljúga með farþega á vélsvifflugu þarf flugmaður að hafa framkvæmt 5 lendingar síðustu 90 daga.

3.4.8 Kennararéttindi

Til að viðhalda kennararéttindum sínum skulu kennarar hafa:
flogið a.m.k. 12 flug í svifflugu sem samtals eru a.m.k. 5 klst. á síðustu 12 mánuðum,
flogið a.m.k. 2 flug úr aftursæti kennslusvifflugu á síðustu 12 mánuðum,
flogið a.m.k. 5 flug í flugtogi og 5 flug í spiltogi á síðustu 12 mánuðum.

3.4.9 Dráttarflugmannsréttindi

Til að viðhalda réttindum sínum skulu dráttarflugmenn hafa:
gilt skírteini fyrir viðkomandi togflugvél,
flogið a.m.k. 10 klst. í vélflugi eða 10 klst. á viðkomandi vélsvifflugu á síðustu 12 mánuðum,
framkvæmt 3 lendingar á viðkomandi dráttarflugvél á síðustu 3 mánuðum.

3.5 Svipting flugréttinda hjá Svifflugfélagi Íslands

3.5.1 Hæfni svifflugmans

Leiki vafi á hæfi svifflugmanns, eða hann hafi í flugi brotið lög um loftferðir eða reglur þessar, sýnt af sér vítavert kæruleysi eða aðrar aðstæður valdið því að hann telst óhæfur til flugs, getur kennari svipt hann flugheimild á vegum félagsins. Úrskurði kennara má áfrýja til stjórnar félagsins.

4. Svifflug

4.1 Undirbúningur flugs

4.1.1. Samsetning svifflugu

Þegar sviffluga er sett saman skal einn aðili með réttindi á sviffluguna stjórna verkinu.
Hann er jafnframt ábyrgur fyrir framkvæmd skoðunar og skal staðfesta hana með áritun.
Aðeins einn skal stjórna samsetningu hverju sinni en að henni lokinni skal annar svifflugmaður staðfesta rétta samsetningu og síðan skulu báðir staðfesta með undirritun í loggbók svifflugunnar.

4.1.2 Skoðun svifflugu

Fyrir flug hverrar svifflugu skal hún skoðuð í samræmi við gátlista sem geymdur skal í henni. Dæmi um slíkan lista er sýnt á bls. 45.
4.1.3 Gátlisti fyrir flugtak

Flugmaður er sjálfur ábyrgur fyrir skoðun viðkomandi svifflugu fyrir flugtak. Dæmi um gátlista fyrir flugtak er á bls. 46.

4.1.4 Flugmaður

Flugmaður skal sjálfur gæta þess að hafa réttindi til flugs á viðkomandi svifflugu sbr. kafla 3.3 og 3.4. Samkvæmt ákvæðum laga um loftferðir má flugmaður ekki stjórna loftfari sé hann vegna neyslu áfengis, æsandi eða deyfandi lyfja, sjúkdóms, þreytu eða annarra líkra orsaka óhæfur til þess. Hafi flugmaður neytt áfengis er honum óheimilt að stjórna loftfari fyrr en að 8 klst. liðnum frá þeim tíma og að áfengismagn í blóði hans sé þá innan við 0.04% (W/W).

4.1.5 Fallhlífar

Í svifflugi er skylt að nota fallhlífar í yfirlandsflugi, listflugi og reynsluflugi eftir meiri háttar viðgerð, enda sé áætluð flughæð yfir 300 m. Í tvísessum skulu báðir vera með fallhlíf.

4.1.6 Yfirlandsflug

Yfirlandsflug á svifflugum er aðeins heimilt handhöfum gilds skírteinis svifflugmanns sem hafa annaðhvort lokið silfur-C eða yfirlandsflugsnámskeiði (sjá 3.3.10). Í yfirlandsflugum er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi búnað um borð:
fallhlíf
talstöð
GPS
Eftirfarandi reglur gilda um yfirlandsflug á svifflugum Svifflugfélags Íslands:
• Þeir sem hyggjast reyna yfirlandsflug hafa forgang að LS-4 svifflugu félagsins.
• Þeir sem hyggjast reyna yfirlandsflug skulu tilkynna það startstjóra eða flugstjóra áður en lagt er af stað.
• Ekki er heimilt að reyna yfirlandsflug í hitauppstreymi frá Sandskeiði nema hæð skýjabotna yfir Sandskeið sé a.m.k. 1000 m.
• Flugmaður skal hafa gert ráðstafanir til að verða sóttur skyldi hann lenda úti.
• Flugmaður í yfirlandsflugi sem þarf að lenda úti skal leitast við að lenda á flugvelli eða nægilega stóru túni til að hægt sé að sækja hann og sviffluguna á dráttarflugvél.
• Flugmaður ber ábyrgð á því að skila svifflugunni samsettri í skýli fyrir upphaf næsta flugdags.

4.1.7 Gátlisti fyrir daglega skoðun

Dæmi um gátlista fyrir daglega skoðun svifflugu:
A. Vinstri vængur:
Almennt ástand (skemmdir, viðgerðir o.s.frv.)
Hallastýri - prófa gegn mótstöðu.
Lofthemlar og vængbörð - prófa gegn mótstöðu.
Vængstífa - tengd og með öryggisnælu.
B. Afturhluti skrokks og stél:
Almennt ástand (skemmdir, viðgerðir, o.s.frv.).
Inntök fyrir viðmiðunarloftþrýsting (opin og hrein).
Hæðarstýri - prófa gegn mótstöðu (tengd og með öryggisnælu).
Hliðarstýri - prófa gegn mótstöðu.
Stéldrag eða stélhjól (ástand, loft-þrýstingur).
C. Hægri vængur:
Sama og fyrir vinstri væng.
D. Framhluti skrokks:
Almennt ástand (skemmdir, viðgerðir, o.s.frv.).
Inntök fyrir viðmiðunarloftþrýsting (opin og hrein).
Skíði og aðalhjól (ástand, loftþrýstingur).
Dráttarkrókur - prófa öryggislosun (eðlileg losun).
E. Stjórnklefi:
Vængfestingar (athugaðar, öryggisnælur).
Stjórntækjatengsl (tengd, öryggisnælur).
Rafhlaða (hlaðin, fest, tengd).
Hlíf yfir vængfestingar (fest).
Húfa (hrein, ósprungin, fest).
Sætisólar (ástand).
Súrefnistæki (fest, hlaðin).
Lausir hlutir (fjarlægja, skorða).
Öll stjórntæki (eðlileg hreyfing og læsing).
Lendingarhjól (niðri og læst).
Mælitæki og talstöð (ástand, virkni).

4.1.8 Gátlisti fyrir flugtak

Dæmi um gátlista fyrir flugtak:
Skoðun svifflugu - lokið.
Súrefnistæki - prófuð.
Hæðarriti - í gangi.
Talstöð - í gangi, stillt á rétta bylgju.
Fallhlíf - athuguð og spennt.
Stjórntæki - prófuð, ystu stöður.
Hleðsla - innan marka m. v. þyngd flugmanns.
Sætisólar - spenntar og þrengdar hæfilega.
Mælitæki - stillt.
Vængbörð - stillt á flugtaksstöðu.
Stilli (trimm) - prófað og stillt.
Hjólatík (dollía) - fjarlægð.
Húfa - lokuð og læst.
Lofthemlar - prófaðir og læstir.
Klikka - prófuð.
Vindátt og hraði - athugað.
Flugbraut - hindrunarlaus.

4.2 Merki sem notuð eru við flugtak


4.2.1 Merki notuð á jörðu niðri

#1 Athuga stýri - hreyfa þumalfingur í hringi.
#2 Tengja dráttartóg - þumal- og vísifingur beggja handa mynda hlekk.
#3 Opna/ loka dráttarkrók - opna/ loka hnefa.
#4 Svifflugmaður tilbúinn - þumalfingur upp.
#5 Dráttarflugvél tilbúin - veifa hliðarstýri dráttarflugvélar.
#6 Sviffluga tilbúin/strekkja - veifa hendi til hliðar neðan við öxl.
#7 Hefja flugtaksbrun - veifa hendi í hring.
#8 Sleppa dráttartaug - olnbogi lárétt til hliðar.
#9 HÆTTA! - veifa höndum fyrir ofan höfuð.

4.2.2 Merki notuð á flugi


#1 Lofthemlar svifflugu opnir - veifa hliðarstýri dráttarflugvélar á flugi.
#2 Beygja til hægri - færa sviffluguna rólega til vinstri og toga þannig í stél dráttarflugvélarinnar.
#3 Beygja til vinstri - færa sviffluguna rólega til hægri og toga þannig í stél dráttarflugvélarinnar.
#4 Minnka hraðann - sviffluga vaggar vængjum.
#5 Sleppa strax! - dráttarflugvél vaggar vængjum.
#6 Sviffluga getur ekki sleppt - færa sviffluguna út í sjónlínu dráttarflugmans, vagga vængjum.
#7 Dráttarflugvél getur ekki sleppt - sveifla stéli dráttarflugvélar.
Athugið að gamla merkið um að auka hraðann (sviffluga sveiflar stéli) er ekki lengur í gildi. Nota skal talstöð í staðinn. Athugið einnig að merki 4 um að minnka hraðann kann að vera breytilegt eftir löndum.
Því þarf að benda erlendum svifflugmönnum sérstaklega á þá staðreynd.

4.3 Flugtog

4.3.1 Flugbraut

Lengd flugbrautar fyrir flugtog skal vera a.m.k. tvöföld lengd nauðsynlegrar flugbrautar fyrir flugtak dráttarflugvélarinnar einnar.
4.3.2 Dráttarflugvél

Dráttarflugvél þarf að vera nægilega aflmikil til að geta klifrað a.m.k. 1 m/s (200 fet/mín) með svifflugu í togi. Ofrishraði hennar og hraði fyrir klifur skulu vera nægilega lágir til að ekki verði farið yfir hámarksflugtogshraða svifflugunnar. Búnaður dráttarflugvélarinnar skal samþykktur af Flugmálastjórn.

4.3.3 Dráttartaug

Dráttartaug skal vera úr 6 mm polypropylen með 550 kg slitstyrkleika.
Æskileg lengd dráttartaugar er 60 m. Við flugtak af stuttri braut má nota styttri taug, þó ekki styttri en 30 m. Slitni dráttartaug skal hún undantekningarlaust splæst en ekki hnýtt. Venjulegur hnútur veikir styrkleika hennar um helming.

4.3.4 Dráttarkrókur

Í flugtogi skal nota dráttarkrók í nefi svifflugunnar sé hann til staðar.
Notkun botnkróks í flugtogi er takmörkuð við flugmenn sem hafa verulega reynslu í flugtogi.

4.3.5 Hraðamörk

Flughraði í flugtogi þarf að vera a.m.k. 30% hærri en ofrishraði svifflugunnar og a.m.k. 20% hærri en ofrishraði dráttarflugvélarinnar, en þó undir leyfilegum hámarks flugtogshraða svifflugunnar. Fyrir flugtak skulu dráttarflugmaður og svifflugmaður hafa ákveðið æskilegan flugtogshraða.

Eftirfarandi hámarkshraðar í flugtogi gilda fyrir svifflugur Svifflugfélags Íslands:
Sviffluga Hámarks hraði í flugtogi
[km/klst] [mph]
K-8b 130 80
Ka-6E 140 87
Ka-7 130 80
ASK-21 180 110
LS-4 180 110

4.3.6 Atburðarás við flugtak í flugtogi

1. Flugmaður gefur „tilbúinn“ merki.
2. Vængmaður athugar umferð, tekur upp væng og gefur „tilbúinn“ merki. Vængmaður taki ekki upp væng fyrr en flugmaður hefur gefið „tilbúinn" merki og engin umferð er.
3. Flugmaður gefur „tilbúinn“ merki.
4. Vængmaður gefur „sviffluga tilbúin“ merki.
5. Dráttarflugvél strekkir.
6. Vængmaður gefur „strekkt“ merki.
7. Flugtak.
Ef notuð er talstöð við flugtak í flugtogi skal fylgja eftirfarandi atburðarás:
1. Flugmaður gefur „tilbúinn“ merki.
2. Vængmaður athugar umferð, tekur upp væng og gefur „tilbúinn“ merki. Vængmaður taki ekki upp væng fyrr en flugmaður hefur gefið „tilbúinn“ merki og engin umferð er.
3. Flugmaður kallar: „Alfreð er tilbúinn“. Dráttarflugmaður endurtekur.
4. Dráttarflugvél strekkir.
5. Flugmaður kallar: „Strekkt“. Dráttarflugmaður endurtekur.
6. Flugtak.

4.3.7 Flugtogið sjálft

A. Dráttarflugmaður skal fylgjast með annarri flugumferð og stjórnar fluginu í samræmi við almennar reglur.
B. Svifflugmaðurinn skal gæta þess vel að hækka ekki flugið of ört í flugtaki, þar sem það getur valdið dráttarflugvél erfiðleikum og skapað hættu. Dráttarflugmaður skal ávallt vera viðbúinn að sleppa umsvifalaust ef svifflugan fer út fyrir eðlilega staðsetningu miðað við dráttarflugvélina. Svifflugmaðurinn skal sömuleiðis hafa hendi nærri sleppihandfangi og vera ávallt viðbúinn að sleppa umsvifalaust.
C. Við flugtak í hliðarvindi skal svifflugunni beitt upp í vindinn eftir að hún lyftist en áður en dráttarflugvél er komin á loft, þannig að réttri flugbrautarstefnu sé haldið. Eftir að dráttarflugvél lyftist skal henni beitt upp í vindinn en svifflugan flutt í stöðu beint fyrir aftan hana.
D. Í hátogi flýgur svifflugan fyrir ofan skrúfuhvirfil dráttarflugvélarinnar. Í klifri skal miðað við að vængir dráttarflugvélar beri rétt ofan við sjóndeildarhringinn. Í lágtogi sem notað er á löngum yfirlandsflugtogum er svifflugunni flogið fyrir neðan skrúfuhvirfilinn.
E. Beygjur í flugtogi skulu yfirleitt gerðar með 15° halla.
F. Ef svifflugmaður vill beina dráttarflugvélinni í aðra stefnu (t.d. til hægri) skal hann færa sviffluguna rólega til gagnstæðrar hliðar (vinstri) og toga þannig í stél dráttarflugvélarinnar. Dráttarflugvélin skal þá beygja 45° til hliðar (hægri) og halda þeirri stefnu.
G. Þegar tilskilinni hæð er náð skal svifflugmaður toga tvisvar í sleppihandfangið með dráttartógina strekkta. Hann skal fylgjast með dráttartóginu fara og beygja síðan til vinstri. Athugið að þessu kann að vera öfugt farið í sumum öðrum löndum. Því þarf að benda erlendum svifflugmönnum sérstaklega á þetta.
H. Dráttarflugmaður skal gæta þess vel að hefja ekki lækkun flugs fyrr en hann sér að svifflugan hefur sleppt dráttartauginni. Hann skal gæta þess að fljúga ekki of nærri annarri flugumferð á meðan dráttartaugin er tengd í vélina. Ef hann ætlar að lenda með dráttartaugina fasta í vélinni skal hann gæta þess að koma nægilega hátt inn til lendingar svo að taugin festist ekki í hindrunum við brautarenda.

4.3.8. Neyðarreglur

A. Bili hreyfill dráttarflugvélar í flugtaki skal dráttarflugmaður strax sleppa dráttartauginni og lenda hægra megin á flugbrautinni.
Svifflugmaður skal einnig sleppa sínum enda og lenda vinstra megin á brautinni.
B. Ef dráttartaugin slitnar í flugtaki eða svifflugmaður hættir við flugtak skal dráttarflugmaður halda áfram flugtaki, fljúga eðlilegan umferðarhring og lenda, en svifflugmaður sleppa dráttartauginni og lenda.

C. Ef dráttartaugin slitnar undir 60 m flughæð, skal svifflugmaður undantekningarlaust lenda beint áfram. Slitni taugin í meiri hæð skal svifflugmaður meta hvort lent skuli beint áfram, undan vindi eða fljúga heilt aðflug. Athuga að í vindi þarf mun meiri hæð til að ná heilu aðflugi.
D. Ef dráttarflugmaður tekur eftir því í flugtoginu að lofthemlar svifflugu eru opnir, skal hann gefa svifflugmanninum merki þar um (veifa hliðarstyri). Ef ekki næst samband við svifflugmanninn í talstöð og svifflugmaðurinn lokar ekki lofthemlum, skal dráttarflugmaðurinn fljúga með sviffluguna upp í a.m.k. 600 m og vera sem mest yfir braut. Þegar svifflugunni hefur verið sleppt yfir brautinni, skal hann reyna að fljúga upp að henni og benda svifflugmanninum á bremsurnar.
E. Missi svifflugmaður sjónar af dráttarflugvélinni, t.d. ef óvart yrði flogið inn í ský, skal hann umsvifalaust sleppa dráttartauginni og beygja til vinstri.
F. Geti sviffluga ekki sleppt dráttartaug að loknu klifri skal svifflugmaður fljúga til vinstri í augsýn dráttarflugmanns og vagga vængjum. Skal dráttarflugmaður þá fljúga til baka að flugvelli í u.þ.b. 600 m. hæð og sleppa sínum enda. Svifflugan skal koma nægilega hátt inn til lendingar til að dráttartaugin festist ekki í hindrunum við brautarenda.
G. Ef hvorki svifflugan né dráttarflugvélin geta sleppt skal fljúga aftur að flugvelli og lækka flugið mjög rólega (1 m/s eða 200 fet/mín). Svifflugan skal fljúga í lágtogi. Fljúga skal vítt aðflug og langa lokastefnu. Svifflugan skal lenda fyrst á flugbrautinni, helst vinstra megin. Dráttarflugvélin skal lenda hægra megin og gæta þess að draga hægt úr hraða eftir lendingu. Svifflugmaður skal nota hjólahemla til að forðast að svifflugan fari yfir dráttartaugina eða renni aftan á dráttarflugvélina.

4.3.9 Tvítog

Nægilega aflmikil dráttarflugvél getur dregið tvær svifflugur samtímis.
Sú sviffluga sem hefur lægra rennigildi skal nota 60 m dráttartaug og fljúga vinstra megin í lágtogi. Hún skal sleppa fyrst og beygja til vinstri. Hin svifflugan skal nota 40 m dráttartaug og fljúga hægra megin í hátogi. Hún skal beygja til hægri eftir að hún sleppir. Aðeins svifflugmenn með verulega reynslu í flugtogi skulu fljúga í tvítogi.
Tvítog er ekki heimilt þegar veruleg ókyrrð er í lofti.

4.4 Spiltog

4.4.1 Öryggishlekkur á dráttarvír

Til að fyrirbyggja að of mikið álag komi á svifflugu í spiltogi skal ávallt hafa öryggishlekk á vírnum. Brotstyrkur skal vera í samræmi við handbók hverrar svifflugu. Að öðru jöfnu má miða við styrk sem samsvarar tvöföldum flugþunga svifflugunnar. Eftirfarandi gildir fyrir svif flugur Svifflugfélags Íslands:
Sviffluga Brothlekkur Brotstyrkur [kp]
Ka-7/ASK-21 Svartur 1.000 ± 100
Ka-6E Blár 600 ± 60
K-8B — .
Trefjagl. sviffl. Hvítur 500 ± 50

4.4.2 Hraðamörk

Þar sem ofrishraði svifflugu í spiltogi er nokkru hærri en í frjálsu flugi, er lágmarkshraði í spiltogi 1,4 sinnum venjulegur ofrishraði. Ef flogið er hægar og beiðni í gegnum talstöð til spilstjóra um að auka hraðann ber ekki árangur skal umsvifalaust sleppa dráttarvírnum. Merkið um að auka hraðann (sviffluga sveiflar stéli) er ekki lengur í gildi. Mjög áríðandi er að í spiltogi sé ekki flogið hraðar en nemur tilgreindum hámarkshraða fyrir spiltog. Ef merki til spilstjóra um minnkun hraða ber ekki árangur strax, skal umsvifalaust sleppa dráttarvírnum.
Eftirfarandi hraðar gilda í spiltogi fyrir svifflugur Svifflugfélags Íslands:
Sviffluga Vmin. Vmax.
K-8b 77 km/klst. 100 km/klst.
Ka-6E 85 km/klst. 100 km/klst.
Ka-7 85 km/klst. 100 km/klst.
ASK-21 80 km/klst. 150 km/klst.
LS-4 90 km/klst. 130 km/klst.

4.4.3 Atburðarás við flugtak í spiltogi

1. Flugmaður gefur „tilbúinn“ merki.
2. Tengja vír í dráttarkrók. Alls ekki má tengja vír í dráttarkrókinn nema flugmaður opni krókinn sjálfur.
3. Vængmaður athugar umferð, tekur upp væng og gefur „tilbúinn“ merki. Vængmaður taki ekki upp væng fyrr en flugmaður hefur gefið „tilbúinn“ merki og engin umferð er.

4. Flugmaður kallar: „Spil, Alfreð er tilbúinn á norðurvír/suðurvír“. Spil endurtekur.
5. Spil strekkir.
6. Flugmaður kallar: „Strekkt“. Spil endurtekur.
7. Flugtak. Ef sviffluga í spiltogi er ekki með talstöð má annaðhvort:
A:
Sama atburðarás og að ofan og startstjóri kemur skilaboðum til spilmanns gegnum talstöð.
B:
1. Flugmaður gefur merki um að tengja skuli dráttarvír í krók svifflugunnar.
2. Tengja vír í dráttarkrók. Vængmaður má alls ekki má tengja vír í dráttarkrókinn nema flugmaður opni krókinn sjálfur. Vængmaður noti merkin um að opna og loka króknum (opinn lófi/krepptur hnefi).
3. Vængmaður athugar umferð, tekur svo upp væng og gefur „tilbúinn“ merki. Vængmaður taki þó ekki upp vænginn fyrr en flugmaður hefur gefið „tilbúinn“ merki og engin umferð er.
4. Vængmaður vaggar vængjum svifflugunnar eins hátt og hann getur.
5. Spil strekkir.
6. Vængmaður heldur vængjum svifflugunnar láréttum þegar strekkt er orðið. Mikilvægt er að vængmaður hætti ekki að vagga vængjunum fyrr en strekkt er orðið.
8. Flugtak.

4.4.4 Áfangar í spiltogi (sjá mynd)

1. Svifflugan rennur af stað. Gætið þess að halda stefnu réttri og vængjum láréttum. Haldið pinnanum frammi til að fyrirbyggja of fljótt og bratt flugtak. Ef eitthvað óvænt kemur fyrir, s.s. að vængur detti niður eða að spilið kippi í sviffluguna þannig að hún rúlli fram fyrir fallhlífina, skal sleppa vírnum umsvifalaust.
2. Flugtak. Flugmaður skal toga rólega í pinnann þegar flugtakshraða er náð. Hann skal stjórna flugtakinu og gæta þess láta ekki sviffluguna taka af honum völdin.
3. Upphafsklifur upp í 30 m hæð. Hættulegasti hluti spiltogsins. Gæta þarf þess sérstaklega vel að klifra ekki of bratt. Hámarksklifurbratti er 30° m.v. jörð. Ef klifrað er of bratt og vírinn slitnar þá ofrís svifflugan og svifflugmaðurinn á enga möguleika á að koma henni í eðlilegt flug áður en hún skellur til jarðar.
4. Aukning klifurbratta. Frá 30 m upp í 50 m hæð hæð skal klifurbrattinn aukinn rólega upp í eðlilegan klifurbratta sem er u.þ.b.
45° m. v. jörð. Í hliðarvindi skal beita svifflugunni upp í vindinn til að reka ekki út af stefnunni.
5. Eðlilegur klifurbratti. Gæta skal þess að flughraði sé innan leyfilegra hraðamarka. Ef svo er ekki skal strax gefa spilstjóra merki um nauðsynlega hraðabreytingu. Athugið að í spiltogi eykst hraðinn þegar togað er í pinnann (öfugt við frjálst flug). Ef ekki tekst að koma hraðanum inn fyrir leyfileg mörk skal setja nefið rólega fram og sleppa vírnum.
6. Færsla í lárétta stöðu. Þegar hámarkshæð er náð, skömmu áður en komið er yfir spilið skal færa sviffluguna í eðlilega flugstöðu. Þar sem að spilið sést ekki er gott að taka mið af kennileiti á jörðu til hliðar við flugbrautina.
7. Dráttarvír sleppt. Fljúga skal beint áfram og toga skal ákveðið þrisvar í sleppihandfangið. Þó að flugmanninum finnist að sjálfvirki sleppibúnaðurinn hafi sleppt, þá getur það hafa verið vírslit eða að spilið hafi bilað og vírinn eða hluti hans sé enn fastur í svifflugunni.
Gæta skal þess að flughraði á hraðamæli sé eðlilegur áður en beygt er. Langhorf svifflugunnar er ekki góður mælikvarði á hraða hennar á þessum punkti þar sem hún getur verið með neikvæða þyngd (G) og við ofris, þótt langhorf hennar sé eðlilegt miðað við sjóndeildarhring.
Beygja getur þá valdið því að svifflugan lendi beint inni í spuna. Og það sem verra er, að flugmaðurinn á erfitt með að átta sig á því hvað hefur gerst þar sem ofrisið og spuninn hefur ekki borið að á sama hátt og í frjálsu flugi (nefið hátt, pinninn aftur).


4.4.5 Vírslit (sjá mynd)

Svifflugmaður skal ávallt vera viðbúinn því að dráttarvírinn slitni eða að spilið bili í spiltogi. Þá skal eftirfarandi gert:
1. Setja strax pinnann fram til að ná eðlilegri flugstöðu og flughraða.
2. Toga ákveðið þrisvar í sleppihandfangið.
3. Meta aðstæður og taka ákvörðun um aðflug eftir flughæð (sjá skýringarmynd):
(1) undir 100 m - lenda beint áfram,
(2) milli 100 og 200 m - fljúga stytt aðflug,
(3) yfir 200 m - fljúga eðlilegt aðflug.
Athuga að halda eðlilegum aðflugshraða allan tímann.


4.4.6 Reglur fyrir spilmann

Spilmaður skal gæta þess að taka ákveðið af stað þar til svifflugan hefur náð eðlilegum klifurhraða. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þungar svifflugur og í litlum vindi. Spilmaður skal þó gæta þess að rykkja ekki snöggt af stað í upphafi.
Þegar svifflugan er komin á loft og hefur náð eðlilegum klifurbratta skal spilmaður fylgjast með vírnum og slá af og stjórna hraðanum þannig að vírinn slúti hæfilega.
Spilmaður skal ávallt horfa á sviffluguna og líta eftir merki frá henni um að minnka hraðann.
Spilmaður skal vera með talstöð og hlusta eftir fyrirskipunum frá svifflugmanninum um að minnka eða auka hraðann.
Þegar sviffluga er kominn í hámarkshæð og farin að nálgast spilið skal spilmaður slá rólega af spilinu og hætta að toga.

Ef sviffluga hefur ekki sleppt þegar hún er komin beint yfir spilið, skal spilmaður umsvifalaust höggva á vírinn. Hann skal þá strax kalla í talstöð til svifflugmannsins og segja honum að vírinn sé enn fastur í honum.

4.5 Hangflug, flug í hitauppstreymi og hæðarflug

4.5.1 Hangflug

Í hangflugi skal þess gætt að flughraði sé nægilega hár þegar flogið er nálægt fjallinu, sérstaklega ef ókyrrð er í lofti.
Allar beygjur í hangflugi skulu vera frá fjallinu þegar flogið er neðar en 100 m yfir efri brún hangsins.
Sé nauðsynlegt að fara fram úr annarri svifflugu í hangflugi skal fara fram úr henni þar sem aðstæður leyfa og þá aðeins milli hennar og fjallsins (ath. að þetta er undantekning frá almennum flugreglum).

4.5.2 Hitauppstreymi

Í hringflugi í hitauppstreymi ræður sú sviffluga stefnu hringflugsins sem fyrst var í þeirri bólu.
4.5.3 Hæðarflug

Í hæðarflugi fyrir ofan 4.000 m. hæð yfir sjávarmáli skal undantekningarlaust nota súrefnistæki.
Í hæðarflugi fyrir ofan 8.000 m. hæð yfir sjávarmáli skal að auki vera með neyðarsúrefnistæki í svifflugunni.

4.6 Listflug

4.6.1. Skilgreining

Með listflugi í þessum kafla er átt við allt flug á svifflugum þar sem beygjuhalli er meiri en 60°.

4.6.2 Listflug á félagssvifflugum

Listflug á svifflugum Svifflugfélags Íslands er eingöngu leyft á ASK-21 og þá og því aðeins að viðkomandi flugmaður hafi heimild kennara til þeirra flugæfinga sem hann er að framkvæma hverju sinni.

4.6.3 Listflug á Sandskeiði

Listflug frá Sandskeiði er einungis heimilt þeim svifflugmönnum sem hafa fengið nægilega tilsögn og þjálfun í listflugi og er kunnugt um tæknilegar takmarkanir á leyfilegri notkun viðkomandi svifflugu. Ætíð skal vera með fallhlíf í listflugi.

4.6.4 Lágmarkshæð

Listflug undir 400 m hæð yfir jörð er stranglega bannað nema með sérstöku leyfi stjórnar og þá eingöngu á flugsýningum og æfingum fyrir flugsýningar.

4.7 Loftrými og samskipti við flugumferðarstjórn

4.7.1 Mörk flugstjórnarrýmis við Sandskeið.

Hærri kröfur um flugskyggni og fjarlægðir frá skýjum gilda innan flugstjórnarrýmis en utan þess. Skýringarmyndin sýnir mörk flugstjórnarrýmis (flugstjórnarsvæðis og vallarsviðs) við Sandskeið.


4.7.2 Fyrir sjónflug gilda eftirfarandi lágmörk

Flug- Fjarlægð frá skýjum
Hluti loftrýmis skyggni Lárétt Lóðrétt
Innan flugstj.rýmis 8 km 1,5 km 300 m
Utan flugstj.rýmis 1,5 km Laus við ský og sér til jarðar

4.7.3 Nálægar blindflugsleiðir

Nálægt Sandskeiði liggja eftirfarandi þrjár blindflugsleiðir:
„Grænn-2“ til Egilsstaða
„Rauður-1“ til Fagurhólsmýrar
„Blár-1“ til Vestmannaeyja
Flugleiðir þessar eru 10 sjómílna (18,5 km) breiðar og er lægsta blindflugshæð með tilliti til hindrana 3.800 fet yfir sjó eða 980 m yfir Sandskeiði. Fyrir blindflug innan flugstjórnarrýmis þarf heimild viðkomandi flugumferðarstjórnar (flugturns eða flugstjórnarmiðstöðvar) áður en slíkt flug er hafið. Flugi skal hagað samkvæmt blindflugsreglum (sjá nánar í ICAO Annex 2, „Rules of the Air", sem fást hjá Flug-málastjórn).

4.7.4 Fjarskiptatíðnir

Eftirfarandi tíðnir eru notaðar við fjarskipti í svifflugi:
119,9 Sandskeið og Melgerðismelar
122,6 Svifflug annarsstaðar á Íslandi
118,0 Reykjavík, flugturn
119,0 Reykjavík, aðflug (Keflavík)
119,7 Flugstjórn
118,1 Flugvellir úti á landi (t.d. Selfoss og Hella)
122,7 Brautarljós á Selfossi og Hellu (lykla til að kveikja)
121,7 Reykjavík, grund (fyrir vélsvifflugu)
128,1 Upplýsingabylgja Reykjavíkurflugvallar
121,5 Neyðartíðni

4.7.5 Talstöðvarsamskipti

Eftirfarandi reglur skal hafa til viðmiðunar í talstöðvarsamskiptum:
A. Innan æfingasvæðis við Sandskeið skal hlusta á tíðni Sandskeiðs -
119,9.

B. Sé farið yfir 3.500' hæð yfir sjó (900 m yfir Sandskeiði) skal hafa samband við Reykjavík-aðflug á 119,0 og tilkynna staðsetningu, flughæð og flugáætlun.
C. Í yfirlandsflugum utan svæðis sem afmarkast af 35 sjómílum eða 50 km frá Keflavíkurflugvelli, austan Ölfusár og Sogs (sjá nánar kort Flugmálastjórnar) skal tilkynna Flugstjórn á 119,7 reglulega um staðsetningu, flughæð og flugáætlun.

4.8 Aðflug og lending

4.8.1 Aðflug á Sandskeiði

Á Sandskeiði er notað þriggja leggja aðflug: Undan vindi, þverleggur og lokastefna.

4.8.2 Umferðarhringur

Almennt skal fljúga vinstri umferðarhring nema þegar lent er til austurs.

4.8.3 Lækkun flugs

Nota skal svæði sunnan og vestan flugbrautar til að lækka sig fyrir aðflug. Ekki skal fljúga yfir flugbrautina í minna en 500 m hæð þegar spil er í notkun.

4.8.4 Tilkynna lendingu

Á undanvindslegg skal kalla í talstöð eftirfarandi: „Sviffluga Alfreð . undan vindi til lendingar á braut“.

4.8.5 Gátlisti fyrir lendingu

Á undanvindslegg skal fara yfir B-B-B-H-H-H gátlista:
B Belti - Spennt og þrengd hæfilega
B Braut - Auð og hindrunarlaus, ath. vindátt, kalla í talstöð
B Bremsur - Prófa hvort opnist
H Hjól - Niður og læst
H Hraði - Ákveða hraða og stilla stilli
H Hæð - Eðlileg miðað við jörð, ekki hæðarmæli

4.8.6 Flughæð í aðflugi

Flughæðir og lengd ferla í aðflugi skal miða við að hægt sé að fljúga alla lokastefnuna með lofthemla hálfa úti. Á undanvindslegg, þvert til móts við lendingarstað, er lágmarksflughæð 150 m yfir hæð lendingarstaðar og 30° - 45° horn frá svifflugunni að lendingarstað miðað við jörð.

4.8.7 Beygjur í aðflugi

Allar beygjur í aðflugi skulu vera 90° með ca. 45° halla. Á þverlegg skal gæta þess að beita svifflugunni nægilega vel upp í vindinn til að hana hreki ekki undan vindi.

4.8.8 Aðflugssvæði

Forðast skal S-beygjur eða hringi á aðflugssvæðinu þar sem að það gæti valdið hættu á árekstri við önnur loftför í aðflugi.

4.8.9 Aðflugshraði

Aðflugshraði skal að jafnaði vera hraði svifflugunnar við besta rennigildi 1/2 vindhraði. Aðflugshraði fyrir svifflugur Svifflugfélags Íslands skal ekki vera lægri en sem hér segir:
Sviffluga Lágmarkshraði í aðflugi
K-8b 80 Km/klst.
Ka-6E 85 km/klst.
Ka-7 85 km/klst.
ASK-21 90 km/klst.
LS-4 90 km/klst.
Framangreindur hraði skal aukinn eftir þörfum ef mótvindur er verulegur, ókyrrð í lofti er mikil eða búast má við að vindur minnki verulega þegar nær dregur jörð. Halda skal sama aðflugshraða allt aðflugið.

4.8.10 Lending í hliðarvindi

Við lendingu í hliðarvindi skal halda sömu ferlum en beina nefi svifflugunnar og/eða halla henni upp í vindinn á undanvindslegg og lokastefnu til að hana hreki ekki undan vindi. Í þann mund sem svifflugan snertir skal snúa henni í rétta brautarstefnu. Þegar svifflugan hefur snert brautina skal beita hliðarstýri ákveðið upp í vindinn til að koma í veg fyrir að hún snúist. Ekki beita hjólhemlum um of svo að stélið lyftist ekki.

4.9 Útilendingar

4.9.1 Ákvörðunarhæð

Svifflugmaður í yfirlandsflugi þarf á hverjum tíma að hafa sett sér ákveðna ákvörðunarhæð. Fari hann niður í þessa ákvörðunarhæð skal hann hefja undirbúning lendingar. Þessi hæð er mjög mismunandi eftir aðstæðum. Hún getur verið 4.000 m í bylgjuveðri norðan við Vatnajökul og hún getur verið 200 m í blíðviðri yfir stórum sléttum túnum austur undir Hvolsvelli. Mikilvægt er að halda sig við þessa ákvörðunarhæð. Annars getur orðið of seint að snúa til lendingar.

4.9.2 Val á lendingarstað

Við val á lendingarstað þarf að athuga eftirfarandi:
Stærð. Leitast skal við að lenda á flugvelli eða túni sem er nægilega stórt til að hægt sé að sækja sviffluguna á dráttarflugvél. Ef fyrirsjáanlegt er að svifflugmaður muni lenda úti skipta fáeinir kílómetrar í viðbót ekki máli. Því er betra að velja sér í tíma góðan lendingarstað í stað þess að fljúga áfram upp á von og óvon.
Yfirborð. Íslensk tún eru yfirleitt góð. Þó geta þau verið mishæðótt, sérstaklega tún í hrauni. Gömul tún geta verið með hryggjum eftir kílræsi.
Vindátt og vindhraði. Má meta út frá reyk frá húsum, vindgáru á tjörnum, rykmekki frá umferð á malarvegum, vindpoka á flugvöllum.
Hindranir. Varast símalínur og rafmagnslínur - líta eftir stauraröð.
Rúllubaggar á túnum.
Búfé. Forðast tún með búfé. Það getur hlaupið fyrir sviffluguna í lendingu og traðkað á henni og étið hana eftir lendingu. Ef aðeins ein kýr er á beit á túni, er það líklega naut.
Aðgengileiki. Ef úr mörgum stórum túnum er að velja er best að velja það sem næst er vegi eða bæ.
Varalendingarstaður. Reyndu að velja svæði með mörgum lendingarstöðum. Þegar þú hefur valið lendingarstað hugsaðu um hvað þú getur gert ef eitthvað fer úrskeiðis. Meðan þú metur aðallendingarstaðinn reyndu að skoða varalendingarstaðinn líka.

4.9.3 Aðflug í útilendingum

Í útilendingum skal nota fjögurra leggja aðflug: þvert á braut, undan vindi, þverleggur og lokastefna. Fljúgðu vinstri umferðarhring ef þess er kostur þar sem það er vani á Sandskeiði.
Notaðu sama aðflugshraða og heima á Sandskeiði - hraða fyrir besta rennigildi hálfan vindhraða og bæta aðeins við ef ókyrrð er í lofti eða búast má við að vindur minnki mikið þegar nær dregur jörðu. Haltu þessum hraða alla leið.

4.9.4 Undan vindi

Undanvindsleggurinn er mikilvægasti leggurinn í útilendingunni.
Í útilendingu hættir flugmönnum til að vera mun nær lendingarbrautinni en í aðflugi að heimavelli (flugmaðurinn er undir álagi og vill vera nær örygginu, þ.e. brautinni). Hugsaðu um að þér hættir til að vera of nærri og getir þá ekki náð almennilegum þverlegg.
Reyndu að meta aðstæður sífellt, reyna að fljúga það langt frá að það séu 30° og að hámarki 45° frá svifflugunni niður að lendingarstaðnum.
Ef eitthvað athugavert sést við lendingarstaðinn meðan flogið er þvert á vind eða undan vindi skaltu meta hvort þú eigir að skipta um lendingarstað ef þú átt annan stað til vara.
Ef þú kemst að því að þú hefur misreiknað hæðina skaltu lengja eða stytta aðflugið eftir þörfum.

4.9.5 Þverleggur

Algengustu mistök við útilendingu er að beygja of snemma inn á þverlegg. Flugmaðurinn er þá of hátt og þarf að nota fulla lofthemla og jafnvel hliðarskrið til að koma svifflugunni niður. Hraðinn verður þá of mikill í lendingunni og svifflugan snertir innar á brautinni en ætlað var.
Ef undanvindsleggurinn var of nærri flugbrautinni verður þverleggurinn of stuttur sem gerir vandamálið enn verra.
Allar beygjur í aðfluginu skulu vera 90° beygjur með 45° halla. Haltu spottanum beinum í beygjum inn á þverlegg og lokastefnu. Hugsaðu ekki um annað meðan þú ert að beygja. Þetta er mikilvægasta atriðið af öllum. Ef spottinn er beinn og svifflugan í eðlilegu flughorfi þannig að nefið vísar undir sjóndeildarhringinn, er ómögulegt að ofreisa eða spinna henni.

4.9.6 Lokastefna

Ef aðflugið hefur verið rétt skipulag á að vera hæfilegt að fljúga lokastefnuna með hálfa lofthemla. Þá er hægt að bregðast við í hvora áttina sem er.
Á lokastefnu má alls ekki skipta um lendingarstað.

4.9.7 Snerting

Snertu með eins lítilli orku og hægt er, þ.e. eins litlum hraða og hægt er, lentu með stélhjólið fyrst og láttu sviffluguna ofrísa um leið og snert er. Notaðu hjólahemla til að stöðva eins fljótt og kostur er.

4.9.8 Eftir lendingu

Skoðaðu sviffluguna, sérstaklega ef lendingin hefur verið hörð.
Snúðu henni 45° undan vindi með þann væng á jörðinni sem snýr upp í vindinn og tjóðraðu hann niður.
Athugaðu túnið og mældu til að meta hvort hægt sé að sækja sviffluguna í flugtogi.
Fylltu út lendingarvottorð og fáðu tvö vitni til að skrifa undir það.
Láttu landeiganda vita af þér.
Láttu Sandskeið vita sem fyrst og óskaðu eftir dráttarflugvél eða bíl eftir því sem við á.

4.9.9 Sérstakar aðstæður

A. Lending í halla. Ef halli sést úr lofti er hann töluverður. Aldrei skal lenda undan halla, frekar undan vindi. Þegar svifflugan fer að hægja á sér á jörðinni skal stíga á hliðarstyri til hliðar til að beygja til hliðar í brekkunni. Annars gæti svifflugan runnið afturábak þegar hún stöðvast.
B. Lending á of stuttri braut. Ef brautin er of stutt má reyna að lenda eftir öðrum langkantinum og beygja síðan til hliðar áður en brautin er búin og nýta þannig skammhliðina líka. Ef fyrirsjáanlegt er að brautin er of stutt og svifflugan fari út í skurð eða rekist á skal framkvæma hringhopp (ground-loop):
• Halda pinnanum frammi.
• Setja vænginn sem snýr upp í vindinn niður með hallastýri.
• Stíga fullt hliðarstýri upp í vindinn.
C. Lending í vatni. Velja lendingarstað nálægt landi og fljúga aðflugið meðfram bakkanum.
Lenda með hjólið niðri, annars getur svifflugan stungist á nefið ofan í vatnið. Lenda eins hægt og kostur er.
D. Lending á ólendandi svæði. Ef lenda þarf á ólendandi svæði (hrauni, grjóti) má reikna með því að svifflugan verði gerónyt. Með því að láta sviffluguna koma niður í hliðarskriði kemur vængendinn niður fyrst og vængurinn brotnar og tekur eitthvað af högginu á sig.

5. Öryggisbúnaður

5.1 Fallhlífar - leiðbeiningar um notkun og meðferð

5.1.1 Undirbúningur fyrir flug

Skoðaðu fallhlífina fyrir notkun. Lítur pakkinn eðlilega út? Opnaðu fallhlífina á kviðnum og athugaðu að allir pinnar séu í réttum götum, að þeir séu ekki bognir og að innsigli sé á neðsta pinna. Athugaðu að hvergi standi óeðlilega mikið efni út úr pakkanum. Athugaðu lása.
Settu hana á þig og þrengdu hæfilega, ekki of þétt, sérstaklega ekki brjóstól.
Athugaðu alla lása. Ýttu á lása sem lokast með því að ýtt er á þá, láttu smella í fjaðurlásum.
Athugaðu að „rip-cord“ handfang sé laust í vasanum og snúi rétt.

5.1.2 Hoppað út

Ef þú þarft að hoppa út (sem verður vonandi aldrei) skaltu gera eftirfarandi:
• Opna hjálm svifflugunnar eða fjarlægja hann með því að toga í neyðarhandfang.
• Losaðu öryggisbeltið. Athugaðu að losa ekki fallhlífina líka (góð regla er að standa upp úr svifflugunni með fallhlífina á sér til að venja sig ekki á að taka fallhlífina af sér um leið og beltin eru losuð).
• Veltu eða spyrntu þér út.
• Opnaðu fallhlífina strax, sérstaklega í lítilli hæð. Ekki skiptir máli hvernig þú snýrð í loftinu.
• Horfðu á handfangið. Settu vinstri þumalfingurinn í handfangið. Gríptu með hægri hendi í handfangið. Ýttu kröftuglega með báðum höndum beint fram.
• Stýrðu þér með því að grípa í aftari ólina sem kemur upp frá öxlunum. Stýrðu upp í vindinn. Ef þú vilt forðast að lenda á ákveðnum stað, horfðu þá ekki á hann, því þá lendirðu einmitt þar.
• Horfðu ekki á jörðina í lendingu heldur út í sjóndeildarhringinn, annars finnst þér jörðin koma ógnarhratt á móti þér og þú dregur fæturna ósjálfrátt að þér.
• Lentu með fætur saman, hnén örlítinn bogin og spennu í lærunum. Notaðu handleggina til að verja höfuðið.
• Láttu þig detta eða rúlla, ekki reyna að standa.
• Ef þú þarft að lenda í vatni, skaltu losa brjóstól fyrir lendingu og klofólar um leið og lent er. Haltu ró þinni. Kafaðu niður til að losna undan fallhlífinni. Syntu á móti straumnum.
• Ef þú lendir í háspennulínum og hangir þar, láttu kalla á mann frá Rafveitunni og hleyptu engum öðrum að. Spyrðu hann fyrst hvort búið sé að taka strauminn af og jarðtengja línuna.
• Ef mikill vindur er og fallhlífin fer að draga þig, náðu þá í eina línu sem liggur upp frá öxlunum, helst línu sem liggur á jörðinni, og togaðu í hana. Þá fellur fallhlífin saman.

5.1.3 Umgengni um fallhlífar

• Ekki nota fallhlífar sem farg á væng. Þá getur komist raki í þær og fallhlífin eyðilagst, eða að losunarpinninn bogni og þá opnast fallhlífin ekki.
• Ekki láta sólina skína á fallhlífina. Hiti og sólarljós skemma efnið.
• Hafðu fallhlífina í geymslupoka þegar svifflugan er í geymslu.
• Komdu fallhlífinni í hlýja og þurra geymslu yfir veturinn.
• Láttu pakka fallhlífinni reglulega (á 120 daga fresti).

5.1.4 Æfingar

Hver svifflugmaður þarf að skipuleggja og æfa viðbrögð ef hann þarf að stökkva út. Þegar á þarf að halda er of seint að fara að hugsa.

5.1.5 Annað

Gæði neyðarfallhlífa fara eftir öryggi við opnun og þó aðallega opnunartíma. Góðar neyðarfallhlífar byrja strax að opnast og opnast á 2-3 sek. Þá hefur flugmaðurinn fallið 50-100 m (fer eftir láréttum hraða svifflugunnar).
Pakka þarf fallhlífum ýmisst á 120 eða 180 daga fresti og fer það eftir framleiðanda. Líftími fallhlífa er yfirleitt 15 - 25 ár.

6. Neyðaráætlun

6.1 Neyðarbúnaður

Vírus, dráttarbíllinn, er miðstöð neiðarbúnaðar. Í Vírusi skal vera slökkvitæki. Einnig eru slökkvitæki í dráttarflugvél og á spilbíl.
Á Vírus skal vera kassi eða taska með búnaði fyrir fyrstu hjálp.
Á startstað skal ævinlega vera talstöð eða sími.

6.2 Viðbrögð við yfirvofandi slysi

Ef flugmaður tilkynnir að hætta sé á að hann nái ekki inn til lendingar á flugbraut og líkur séu á lendingu við hættulegar aðstæður skal:
• Senda dráttarflugvél á loft og eða biðja aðrar svifflugur á lofti að fylgjast með flugmanni til að staðsetja og leiðbeina.
• Hringja í neyðarnúmer 112 og óska eftir sjúkrabifreið þegar í stað þar sem hætta sé á slysi.
• Senda bíl með neyðarbúnað og 3 - 4 menn af stað til áætlaðs lendingarstaðar svifflugunnar.
• Ef lendingarstaður er fjarri Sandskeiði skal þegar tilkynna Aðflugi Reykjavík og óska aðstoðar.

6.3 Viðbrögð við slysi

Hafi orðið slys á fólki er mjög mikilvægt að bregðast við ákveðið en þó yfirvegað:
• Tilkynna slys í neyðarnúmer 112.
• Senda Vírus og menn með neyðarbúnað og þekkingu eða menntun í fyrstu hjálp á slysstað.
• Kalla svifflugur á lofti niður til lendingar með skipulegum hætti.
• Upplýsa 112 nákvæmlega um slysstað. Setja mann út við þjóðveg eða við hlið eftir aðstæðum sem leiðbeinir sjúkrabíl beint að slysstað.
• Upplýsa Flugmálastjórn (væntanlega gerir 112 það strax).
• Þeir sem voru vitni að slysinu skulu þegar skrifa niður hvernig það bar að til að vitnisburðurinn geti nýst við rannsókn slýssins. Ef þetta er ekki gert strax sýnir reynslan að minni vitna dofnar hratt.
• Loka svæðinu svo sem unnt er fyrir utanaðkomandi aðilum þ. m. t. fjölmiðlum uns rannsóknaraðilar eru mættir og taka við stjórn slysstaðarins.
• Fyrirspurnum fjölmiðla skal beint til eins aðila á staðnum, kennara eða þess sem er flugstjóri dagsins. Veita skal hnitmiðaðar upplýsingar. Ekki vera með vangaveltur um orsök slyssins og ekki upplýsa um nöfn þeirra sem þar koma að máli.
• Ef slysstaður er fjarri Sandskeiði verður að nota 112 sem farveg til að fá aðstoð hjálparsveita og/eða Landhelgisgæslu eftir atvikum.

7. Lokaorð

Taktu þessar reglur alvarlega.
Öryggismál eru ekkert grín, þau eru dauðans alvara.
Kæruleysi eða þekkingarleysi þitt getur kostað þig eða félaga þinn lífið.


© Svifflugfélag Íslands 1994
Endurskoðað í febrúar 2003